„Þessi gæi er ekki að fara að skora svona mark aftur“

Selfyssingar töpuðu 0-2 þegar Víkingur Ólafsvík kom í heimsókn á JÁVERK-völlinn í kvöld í 1. deild karla í knattspyrnu.

„Uppleggið okkar gekk vel. Við vitum að þetta er gott lið og við vorum að reyna að loka á þá öðru megin og fá þá til að spila löngum boltum. Það var ekkert sem kom okkur á óvart í fyrri hálfleik, alveg þangað til á 45. mínútu. Þá skora þeir svakalegt mark. Þessi gæi er ekki að fara að skora svona mark aftur á morgun eða hinn. Skalli upp í loftið og svo hjólhestaspyrna upp í sammann, á alveg skelfilegum tíma. Það er lítið hægt að gera í þessu en þetta breytti leiknum því þeir eru góðir að verjast og geta legið til baka,“ sagði Einar Ottó Antonsson, fyrirliði Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Við vorum að fá góð færi í fyrri hálfleik þannig að við breyttum ekki miklu fyrir seinni hálfleikinn. En svo fáum við á okkur mark, þar sem mér fannst reyndar vera brotið á Jordan í aðdragandanum. Eftir það er leikurinn mjög erfiður fyrir okkur þó að við höfum haldið áfram að reyna alveg til leiksloka,“ sagði Einar ennfremur.

Fyrri hálfleikur var jafn og bæði lið unnu greinilega markvisst eftir sínu skipulagi. Bæði lið áttu álitlegar sóknir og fín færi þó að dauðafærin hafi ekki verið mörg. Selfyssingar sköpuðu þó stórhættu á 31. mínútu með frábærri sókn og góðum spretti Þorsteins Daníels Þorsteinssonar. Hann renndi boltanum inn á Jordan Edrigde sem var einn í teignum en Edrigde hitti ekki boltann vel og skaut framhjá.

Það leit allt út fyrir að fyrri hálfleikur yrði markalaus en Hrvoje Tokic var ekki á því máli. Hann gjörnýtti bókstaflega síðustu spyrnu fyrri hálfleiks með einu glæsilegasta marki sem sést hefur á Selfossvelli. Eftir klafs í teignum og lélega hreinsun Selfyssinga barst boltinn á Tokic í miðjum vítateignum og hann skoraði með frábærri hjólhestaspyrnu.

Staðan var því 0-1 í hálfleik og lítið gerðist í síðari hálfleik fyrr en á 54. mínútu þegar Víkingarnir kláruðu leikinn með öðru marki sínu. Selfyssingum gekk illa að hreinsa frá eftir hornspyrnu og eftir klafs í teignum náði Alfreð Hjaltalín lausu skoti sem lak framhjá öllum varnarmönnum Selfoss og Vigni Jóhannessyni í markinu.

Eftir annað markið var leikurinn í nokkuð öruggum höndum Víkinga en Selfyssingar voru þó ekki minna með boltann og áttu ágætar sóknir inn á milli en sköpuðu litla hættu upp við mark gestanna.

Úrslit kvöldsins voru ekki góð fyrir Selfyssinga því Grótta vann Grindavík og Fram náði stigi gegn Fjarðabyggð. Það þýðir að eftir fjórtán umferðir er Fram í 9. sæti með 13 stig, Selfoss í 10. sæti með 13 stig og Grótta í 11. sæti með 11 stig. BÍ/Bolungarvík situr í botnsætinu með 5 stig.

Víkingar, hins vegar, eru í 2. sæti deildarinnar, einu stigi á eftir toppliði Þróttar.

Fyrri greinSpornað gegn útbreiðslu lúpínu í Hveragerði
Næsta greinÞórhallur skoraði þrennu fyrir Stokkseyringa