Hrunamenn eignuðust tvo Evrópumeistara

Stelpurnar í íslenska U16 landsliðinu í körfubolta urðu í gær Evrópumeistarar í C-deild kvenna 2015. Ungmennafélag Hrunamanna á tvo fulltrúa í liðinu.

Það eru þær Ragnheiður Björk Einarsdóttir og Þórdís Jóna Kristjánsdóttir.

Mótið fór fram í Andorra í ár og er skemmst frá því að segja að íslenska liðið vann yfirburðasigur í öllum sínum leikjum en úrslitaleikurinn í gærkvöldi var gegn Armeníu. Ísland sigraði örugglega í þeim leik, 76-39.

Önnur úrslit voru 69-37 gegn Möltu, 97-31 gegn Andorra og 86-20 gegn Wales en fullyrða má að sigur liðsins á þessu móti var fyrst og fremst sigur liðsheildarinnar.

Fyrri greinSelurinn Dilla horfin á vit feðra sinna
Næsta greinLíf og fjör á Flúðum um verslunar-mannahelgina