„Ég gæti ekki verið stoltari“

„Þetta var draumaleikur fyrir áhorfendur, en aðeins erfiðari fyrir okkur,“ sagði Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, sem tryggði sér sæti í úrslitum Borgunarbikars kvenna í dag í ótrúlegum leik gegn Val.

„Þetta reyndi á okkur þjálfarana, við þurftum að vinna hratt og hugsa mikið og vinna með liðinu og það gekk mjög vel. Við þurftum að gera breytingu snemma í fyrri hálfleik þegar Hrafnhildur [Hauksdóttir] viðbeinsbrotnaði en það kom strax reynsla og ákveðin ró inn á völlinn með Thelmu Björk [Einarsdóttur].

Svo breyttum við skipulaginu snemma í seinni hálfleik og eftir það tókum við leikinn alveg yfir. Við erum alltaf að hamra á því að við hættum aldrei og gefumst aldrei upp og ég held að það hafi kristallast hérna í dag,“ sagði Gunnar sem missti aldrei trúna á sínu liði.

„Þegar við náðum jöfnunarmarkinu þá varð ég mjög sáttur. Við lentum 2-0 undir og klúðruðum víti en eftir að við jöfnuðum þá vissi ég að við myndum vinna þennan leik. Munurinn á liðunum var bara þannig, fitnessið var með okkur, þær voru byrjaðar að detta og fá krampa og við vorum sneggri á fótunum í okkar vinnu. Selfossliðið er í ógeðslega góðu formi.“

Gunnar er nú á leiðinni í bikarúrslit á Laugardalsvellinum í fjórða skiptið á fimm árum. Tvisvar með Val, og nú tvisvar með Selfoss. „Þetta er ógeðslega gaman. Ég gæti ekki verið stoltari. Ég vona bara að stuðningsmennirnir og bæjarfélagið haldi áfram að styðja við bakið á okkur og haldi áfram að bæta met og skrifa söguna með okkur,“ sagði Gunnar að lokum.

Fyrri greinSelfyssingar aftur í bikarúrslitin
Næsta greinRegína Rósa stýrir Álfaborg