Selfyssingar sogast niður í fallbaráttuna

Eftir að hafa aðeins náð í eitt stig í síðustu fjórum leikjum eru Selfyssingar að sogast fyrir alvöru niður í fallbaráttuna í 1. deild karla í knattspyrnu.

Liðið tapaði 2-1 fyrir Þór á Akureyri í kvöld eftir að hafa komist yfir í fyrri hálfleik.

Þórsarar voru meira með boltann í fyrri hálfleiknum og Selfyssingar fengu engin alvöru færi. Þórsarar höfðu verið nær því að skora allt þar til á 38. mínútu að Ragnar Þór Gunnarsson stangaði boltann glæsilega í netið eftir hornspyrnu. 0-1 í hálfleik.

Heimamenn jöfnuðu eftir fimm mínútna leik í síðari hálfleik. Þeir áttu þá hornspyrnu sem var skölluð í þverslána og boltinn datt síðan fyrir Ármann Pétur Ævarsson sem kom honum af harðfylgi í netið.

Skömmu síðar var Ragnar Þór nálægt því að koma Selfyssingum aftur yfir en Sandor Matus varði frábærlega í marki Þórs.

Leikurinn róaðist nokkuð eftir þessar fjörugu upphafsmínútur og það var ekki fyrr en á síðasta korterinu að Þórsarar náðu að gera alvöru áhlaup. Á 75. mínútu áttu þeir skalla í þverslá og mínútu síðar kom sigurmarkið. Hár bolti í átt að marki Selfoss sem Vignir markvörður virtist misreikna og Jóhann Helgi Hannesson kom á ferðinni, vann einvígið við Vigni og kom knettinum í netið.

Þórsarar voru nær því að bæta við mörkum á lokakaflanum en þegar flautað var til leiksloka sátu Selfyssingar eftir í 10. sæti deildarinnar, fjórum stigum fyrir ofan fallsæti.

Fyrri greinTýndur drengur fannst sofandi heima
Næsta grein„Það þýðir lítið að væla yfir dómgæslunni“