Góður sigur á Gróttuvelli

Lið 2. flokks karla Selfoss/Hamar/Ægir/Árborg sigraði Gróttu 1-2 á Vivaldivellinum á Seltjarnarnesi á þriðjudagskvöld og er nú komið í 3. sæti B-deildarinnar.

„Þetta var rosalega mikilvægur sigur í erfiðum útileik. Þessi árgangur hefur átt erfitt með þetta Gróttulið í gegnum yngri flokkana og það gerir þetta mjög sætt. Við vorum ekki nógu góðir í fyrri hálfleik en seinni hálfleikurinn var mjög flottur. Við spilum góðan varnarleik og gáfum fá færi á okkur. Við erum enn og aftur hrikalega ánægðir með andlega styrkinn. Gróttumennirnir misstu hausinn í annars mjög jöfnum leik. Við töluðum um að halda einbeitingu sama hvað myndi gerast og sigra. Það gekk eftir og við höldum áfram að safna stigum,” sagði Njörður Steinarsson annar þjálfara liðsins í viðtali við sunnlenska.is.

Grótta byrjuði leikinn af krafti og komst yfir með marki á 30 mínútu. Selfyssingar bitu í skjaldarrendur og náðu meiri krafti í sinn leik í framhaldinu og uppskáru jöfnunarmark á 34. mínútu. Þar var verki miðjumaðurinn knái Sindri Pálmason með góðu skoti úr teignum.

Selfyssingar voru mun betri í seinni hálfleik og stýrðu leiknum á löngum köflum. Framherjinn Arnar Logi Sveinsson skoraði svo markið mikilvæga af stuttu færi á 57. mínútu. Markið reyndist sigurmarkið í leiknum og Selfyssingar sigldu heim þremur mikilvægum stigum.

Selfoss2 sigraði sinn leik 0-2 þar sem Eysteinn Aron Bridde og Gylfi Dagur Leifsson skoruðu mörkin.

Næsti leikur hjá 2. flokki er á móti Þór Akureyri í 16 liða úrslitum bikarkeppni KSÍ. Leikurinn fer fram á JÁVERK-vellinum á Selfossi föstudaginn 3. júlí kl 16:30.

Við hvetjum Sunnlendinga til þess að gera sér ferð á völlinn og styðja strákana.

Fyrri greinSækja örmagna ferðamann
Næsta grein„Vakti ekki fyrir mér að splundra samfélaginu“