Djúpt á fyrsta markinu í öruggum sigri

Kvennalið Selfoss tók á móti Aftureldingu í Pepsi-deild kvenna í kvöld, í léttu haustveðri á JÁVERK-vellinum. Lokatölur urðu 2-0.

Ingimar Helgi Finnsson skrifar frá Selfossvelli:

Liðin eru að berjast á sitthvorum enda töflunnar en Selfyssingar voru í 3. sæti fyrir leik eftir að hafa unnið fjóra leiki af fimm. Afturelding sat í 8. sæti með aðeins eitt stig eftir fimm leiki.

Selfyssingar hófu leikinn af nokkrum krafti og Donna-Kay Henry komst í ákjósanlegt færi eftir að hún prjónaði sig í gegnum vörn Aftureldingar á 2. mínútu. En í stað þess að skjóta reyndi hún að koma boltanum fyrir á Guðmundu Brynju Óladóttur en varnarmenn Aftureldingar sáu við því.

Selfoss var meira með boltann án þess þó að skapa sér dauðafæri en nokkur hálffæri litu dagins ljós. Það var ekki fyrr en á markamínútunni, þeirri 43., sem Selfoss fékk sitt fyrsta dauðafæri. Henry átti þá fínan sprett upp vinstri kantinn og átti frábæra fyrirgjöf á fjærstöngina þar sem Eva Lind Elíasdóttir kom aðvífandi og setti boltann í stöngina áður en boltinn rúllaði í fangið á Mist Elíasdóttur í marki Aftureldingar.

Jafnt og markalaust í leikhléi í heldur bragðdaufum fyrri hálfleik.

Liðin mættu óbreytt til leiks í seinni hálfleik og var ljóst að Selfyssingar ætluðu að reyna að setja mark snemma en liðið spilaði hærra uppi á vellinum og setti pressu á lið Aftureldingar. Mist varði tvisvar sinnum ágætlega á upphafsmínútum seinni hálfleiks eftir skot frá Dagnýju Brynjarsdóttur og Evu Lind.

Það var svo á 59. mínútu sem að Selfyssingar brutu ísinn. Henry fékk þá frábæra sendingu inn fyrir vörn Aftureldingar, lék á Mist í markinu og lagði boltann í netið. Hún skoraði þar sitt þriðja mark í Pepsi-deildinni í sumar.

Á 77. mínútu fékk Guðmunda sendingu upp hægri kantinn, hún lék inní teiginn fór framhjá varnarmanni og átti þrumuskot sem að Mist varði. Guðmunda var fyrst á boltann og átti annað skot sem að Mist varði aftur, boltinn barst á Magdalenu Önnu Reimus sem stýrði knettinum í nærhornið og staðan orðin 2-0. Magdalena hafði einungis verið inná í tíu mínútur eftir að hafa komið inná sem varamaður fyrir Evu Lind.

Selfyssingar héldu boltanum vel síðustu mínútur leiksins og áttu nokkur skot að marki Aftureldingar en náðu ekki að bæta við marki. Góður dómari leiksins, Aðabjörn Heiðar Þorsteinsson, flautaði svo leikinn af og nokkuð þægilegur 2-0 sigur Selfyssinga staðreynd.

Eftir leikinn eru Selfossstúlkur komnar í 2. sæti með 15 stig einungis stigi á eftir Breiðablik sem situr á toppnum, en fyrr í kvöld gerðu þær góða ferð að Hlíðarenda þar sem Blikastúlkur fóru með 0-6 sigur af hólmi. Afturelding situr eftir á botni deildarinnar með 1 stig.

Rétt er að hvetja Sunnlendinga og aðra nærsveitunga til þess að fjölmenna á næsta leik Selfyssinga, mánudagskvöldið 23. júní, en það verður sannkallaður toppslagur þegar Breiðablik býður Selfyssingum í heimsókn á Kópavogsvöll.

Fyrri greinÁtök við Litlu kaffistofuna
Næsta greinListin notuð sem vopn í baráttunni gegn heimilisofbeldi