Selfyssingar upp í 2. sætið

Kvennalið Selfoss er komið upp í 2. sæti Pepsi-deildarinnar í knattspyrnu eftir sannfærandi sigur á Val á útivelli í kvöld, 1-3.

Selfyssingar mættu ákveðnir til leiks og komust yfir strax á 3. mínútu. Guðmunda Óladóttir fékk þá boltann inni í vítateignum og þrumaði honum upp í þaknetið.

Selfossliðið réði lögum og lofum í framhaldinu og skapaði nokkur góð færi sem hefðu átt að færa þeim fleiri mörk.

Staðan var 0-1 í hálfleik en strax á 5. mínútu síðari hálfleiks kom Dagný Brynjarsdóttir Selfyssingum í 0-2. Anna María Friðgeirsdóttir tók þá aukaspyrnu á vinstri kantinum og Dagný stökk kvenna hæst í vítateignum og stangaði boltann laglega í netið.

Á 65. mínútu átti Dagný síðan frábæra sendingu inn á Donna-Kay Henry sem lék á markvörð Vals og skoraði í autt markið.

Valur minnkaði muninn á 71. mínútu með snyrtilegu marki Vesnu Elísu Smiljkovic. Bæði lið hefðu getað bætt við mörkum á lokakaflanum, meðal annars áttu bæði lið stangarskot en Selfoss kláraði leikinn vel og vann sanngjarnan sigur.

Á sama tíma lagði Breiðablik Stjörnuna 1-0 þannig að Blikar eru komnir á toppinn með 13 stig en Selfoss er í 2. sæti með 12 stig. Næsti leikur Selfoss er gegn Aftureldingu á heimavelli þann 16. júní.

Fyrri greinÓk fram af hengju á Vatnajökli
Næsta greinFramkvæmdir við grunnskólann, gatnakerfið og fleira