Selfyssingar börðust fyrir stiginu

Selfyssingar gerðu 2-2 jafntefli við KA í 1. deild karla í knattspyrnu í gær, þegar liðin mættust á Akureyri.

Selfossliðið var undir í baráttunni í fyrri hálfleik, KA komst yfir strax á 3. mínútu leiksins og Selfyssingar máttu prísa sig sæla að vera aðeins einu marki undir í leikhléi.

Einar Ottó Antonsson jafnaði fyrir Selfoss þegar um fimmtán mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. Selfoss fékk aukaspyrnu og eftir klafs í vítateignum setti Einar boltann í netið.

Tíu mínútum síðar komust KA-menn yfir aftur eftir hornspyrnu en Ingþór Björgvinsson jafnaði á nýjan leik fyrir Selfoss þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum.

Lokamínúturnar voru fjörlegar og í uppbótartíma virtust KA menn hafa skorað löglegt mark eftir hornspyrnu en dómari leiksins dæmdi markið af og flautaði svo til leiksloka.

Selfyssingar hafa nú fimm stig í 8. sæti deildarinnar en KA er í 2. sæti með 11 stig. Næsti leikur Selfoss er gegn Fram á heimavelli næstkomandi fimmtudag.

Fyrri greinÞorkell jafnaði í lokin
Næsta greinNý virkjun neðanjarðar