„Þetta var mikill vinnusigur“

Selfoss vann frábæran 1-2 sigur á Íslands- og bikarmeisturum Stjörnunnar í Pepsi-deild kvenna í Garðabænum í kvöld

„Þetta var mikill vinnusigur og það sem við lögðum upp með gekk. Ég hefði reyndar viljað vinna stærra og er svekktur með að við vannýttum góð færi,“ sagði Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við fotbolti.net eftir leik.

Selfyssingar léku gegn stífum vindi í fyrri hálfleik. Þrátt fyrir það gerði Anna María Friðgeirsdóttir sér lítið fyrir og kom Selfyssingum yfir á 20. mínútu þegar hún lét vaða á markið úr aukaspyrnu langt úti á velli.

Selfoss hefði getað bætt við mörkum í fyrri hálfleik en Stjarnan sótti meira og komst lítið áleiðis.

Staðan var 0-1 í hálfleik en í upphafi síðari hálfleiks jafnaði Stjarnan metin. Þar var að verki Harpa Þorsteinsdóttir með nokkuð skrautlegu marki eftir klaufaskap Sandiford í marki Selfoss.

Eftir jöfnunarmarkið var leikurinn jafn en Selfyssingar börðust vel, skipulagðir í vörninni og mun beittari í sókninni. Eftir tvær hornspyrnur í röð á 68. mínútu skoraði Guðmunda Brynja Óladóttir svo sigurmarkið þegar hún þrumaði boltanum í netið af stuttu færi.

Sóknir Stjörnunnar þyngdust undir lokin en Selfossvörnin lokaði á alla hættu og þær vínrauðu lönduðu sætum sigri. Þetta var fyrsti sigur Selfoss á Samsungvellinum og fyrsti ósigur Stjörnunnar í nítján leikjum í röð í deildinni.

Selfoss er í 5. sæti deildarinnar með 6 stig og mætir næst Þrótti á heimavelli þann 2. júní.

Fyrri greinMorgunverður, hlutavelta og hrossamessa
Næsta greinÁrborg skoraði átta