Tilþrifalítill tapleikur í Ólafsvík

Selfoss tapaði 1-0 þegar liðið heimsótti Víking í Ólafsvík í 1. deild karla í knattspyrnu í dag.

Fyrri hálfleikur var tíðindalítill, fátt var um færi en bæði lið voru þó nærri því að skora.

Staðan var 0-0 í hálfleik en strax á annarri mínútu síðari hálfleiks komust heimamenn yfir. William da Silva skoraði þá með föstu skoti úr teignum eftir góða sókn heimamanna.

Annars var fátt um færi í síðari hálfleik og ekki fyrr en á síðasta korterinu að sóknir Selfyssinga þyngdust. Færin létu þó á sér standa og hvorugu liðinu tókst að bæta við marki.

Selfyssingar eru nú í 7. sæti deildarinnar eftir tvö töp í röð, með þrjú stig. Víkingar eru hins vegar í 3. sætinu með 7 stig.

Næsti leikur Selfoss er gegn Grindavík á heimavelli þann 29. maí.

Fyrri greinÆgir steinlá heima
Næsta grein„Rangæingar eru vanir að skora í Eyjum“