„Við vorum yfir í baráttunni“

Fyrsti Suðurlandsslagurinn af mörgum í A-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu fór fram á Grýluvelli í kvöld þar sem Hamar lagði Stokkseyri örugglega, 6-1.

„Þetta var stórfínt hjá okkur, góð stemmning og gaman að sjá svona marga áhorfendur á vellinum. Við litum vel út í kvöld enda með flott lið þar sem heimamennirnir spila stórt hlutverk,“ sagði Ólafur Hlynur Guðmarsson, þjálfari Hamars, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Leikurinn var í okkar höndum nánast frá fyrsta marki. Þá var bara spurning hvenær næsta mark kæmi. Stokkseyri er með fínt lið en við vorum yfir í baráttunni í kvöld og náðum að hreyfa boltann vel. Þeir komust aldrei inn í leikinn,“ sagði Hamarsþjálfari ennfremur og er bjartsýnn á sumarið.

„Það eru allir leikir erfiðir í þessum riðli. Við eigum Létti næst á útivelli og það verður erfitt. Það getur allt gerst í þessari deild en þetta er allt á uppleið hjá okkur og útlit fyrir skemmtilegt sumar.“

Hamarsmenn höfðu talsverða yfirburði í leiknum og komust yfir strax á 10. mínútu með marki Jorge Blanco. Hamar tók þá stutta hornspyrnu og Blanco skrúfaði boltann snyrtilega í fjærhornið, yfir Eyþór Gunnarsson í marki Stokkseyrar.

Á 18. mínútu fengu Hamarsmenn aukaspyrnu úti á vinstri kantinum. Þorlákur Máni Dagbjartsson lyfti boltanum inn á teiginn þar sem maður leiksins, Ágúst Örlaugur Magnússon, stangaði hann inn. Ágúst var nálægt því að endurtaka leikinn á 26. mínútu þegar hann skallaði boltann í stöngina eftir hornspyrnu.

Jorge Blanco var líka nálægt því að bæta við marki á 30. mínútu þegar Hamarsmenn áttu hornspyrnu. Þeir endurtóku stuttu hornspyrnuna sem skilaði fyrsta markinu en nú var Eyþór viðbúinn þegar Blanco reyndi að skrúfa boltann í fjærhornið og varði vel.

Þriðja mark Hamars kom á 41. mínútu. Eftir langt innkast og klafs í vítateig Stokkseyrar náði Helgi Guðnason að pota boltanum á Þorlák Mána sem lét vaða í netið af öryggi. Hvergerðingar voru ekki hættir, því Hermann Ármannsson bætti við marki þremur mínútum síðar með skoti úr teignum þar sem Stokkseyrarvörnin steinsvaf á verðinum. 4-0 í hálfleik.

Stokkseyringar höfðu ekki fengið færi í fyrri hálfleik og Hlynur Kárason, sem spilaði fyrri hálfleikinn í marki Hamars, þurfti aðeins einu sinni að hlaupa út í teiginn og hreinsa þegar Örvar Hugason var við það að sleppa innfyrir. Gestirnir fengu hins vegar fyrsta færi seinni hálfleiks en Nikulás Magnússon varði þá vel skot Barða Páls Böðvarssonar úr vítateignum.

Hvergerðingar þurftu hins vegar ekki að bíða lengi eftir fyrsta marki sínu í síðari hálfleik. Á 53. mínútu komst Friðrik Örn Emilsson hægra megin inn í vítateig Stokkseyringa þar sem Örvar braut á honum. Ágúst Örlaugur fór á punktinn og skoraði af öryggi, 5-0.

Fjórum mínútum síðar lagði Ágúst Örlaugur upp sjötta markið með lúmskri sendingu inn í vítateig Stokkseyringa. Þar var Daníel Rögnvaldsson fyrstur í boltann og skoraði gott mark. Í næstu sókn Hamars skaut Hafþór Vilberg Björnsson yfir úr góðu færi við markteiginn eftir fyrirgjöf frá Hermanni.

Leikurinn róaðist nokkuð eftir sjötta mark Hamars og miðjumoðið varð allsráðandi. Á 80. mínútu fengu Hvergerðingar hornspyrnu, boltinn barst inn á teiginn þar sem Björn Ásgeir Björgvinsson átti hörkuskot sem Eyþór varði vel niður á marklínuna. Boltinn virtist fara innfyrir línuna en bæði dómari og aðstoðardómari voru í erfiðri stöðu til að meta það og leikurinn hélt áfram.

Stokkseyringar færðu sig upp á skaftið undir lokin. Á 85. mínútu tók Guðmundur Víðisson aukaspyrnu úti á miðjum velli sem Nikulás sló naumlega yfir Hamarsmarkið. Þremur mínútum síðar skoraði svo varamaðurinn Arnar Þór Halldórsson gott mark. Hvergerðingar voru kærulausir í öftustu víglínu, Guðmundur náði boltanum og sendi hnitmiðaða sendingu innfyrir á Arnar sem kláraði færið vel framhjá Nikulási.

Í uppbótartíma small svo boltinn aftur í tréverkinu á marki Stokkseyrar þegar Hafþór Vilberg átti hörkuskalla í þverslána eftir hornspyrnu.

Lokatölur 6-1 og Hvergerðingar hressir mjög í leikslok.

Fyrri greinAðalbjörg Ýr dúxaði í FSu
Næsta greinHuppa komin til Reykja­vík­ur