Selfoss áfram í bikarnum

Karlalið Selfoss í knattspyrnu er komið í 32-liða úrslit Borgunarbikarsins eftir 0-2 sigur á 3. deildarliði Reynis í Sandgerði í kvöld.

Selfyssingar voru ekki sannfærandi í fyrri hálfleik en náðu vopnum sínum í þeim síðari.

Staðan var 0-0 í hálfleik en á 56. mínútu kom Magnús Ingi Einarsson Selfyssingum yfir með góðu skallamarki eftir hornspyrnu.

Í kjölfarið höfðu Selfyssingar góð tök á leiknum og Einar Ottó Antonsson innsiglaði sigur Selfoss á 84. mínútu með skoti utan teigs en boltinn hafði viðkomu í varnarmanni áður en hann fór í netið.

Bakvörðurinn Þorsteinn Daníel Þorsteinsson fór meiddur af velli í fyrri hálfleik eftir að hafa tognað smávægilega á nára og líklega mun hann missa af deildarleik Selfyssinga gegn Víkingi í Ólafsvík næstkomandi laugardag.

Fyrri grein„Ég stökk upp eins og ninja“
Næsta greinNýtt lag frá Tónum og Trix – MYNDBAND