Hrafnhildur hetja Selfyssinga

Það er alltaf hörkubarátta á vellinum þegar kvennalið Selfoss og ÍBV mætast og leikur þeirra í Pepsi-deildinni á JÁVERK-vellinum í kvöld var engin undantekning.

Hvorugu liðinu tókst að landa sigri í 1. umferðinni en á meðan Selfoss steinlá gegn Fylki sóttu Eyjakonur eitt stig á Akureyri.

Strax á 4. mínútu fékk Guðmunda Brynja Óladóttir dauðafæri þegar hún pressaði Sabrínu Adolfsdóttir í vörn ÍBV og slapp innfyrir. Skot Guðmundu var hins vegar slappt, beint á Bryndísi Láru Hrafnkelsdóttur í marki ÍBV.

Liðin skiptust á um að þreifa fyrir sér í fyrri hálfleik en færin voru ekki mörg. Á 19. mínútu náðu Selfyssingar að bægja hættunni frá á síðustu stundu eftir að Shaneka Gordon hafði sloppið innfyrir og þremur mínútum síðar small hornspyrna Sóleyjar Guðmundsdóttur í stönginni.

Selfoss sótti í sig veðrið undir lok fyrri hálfleiks og á 35. mínútu var Dagný Brynjarsdóttir komin í góða stöðu í vítateignum eftir frábæra sókn Selfyssinga. Hún náði hins vegar ekki krafti í skotið, sem fór beint á Bryndís sem varði vel.

Ísinn brotnaði loksins á 41. mínútu þegar Sabrína braut á Guðmundu innan vítateigs og dómarinn dæmdi réttilega víti. Guðmunda fór sjálf á punktinn og skoraði af öryggi. Tveimur mínútum síðar átti Dagný hörkuskot úr teignum sem rataði beint á Bryndísi.

ÍBV vildi svo fá vítaspyrnu á 45. mínútu þegar Heiðdís Sigurjónsdóttir virtist brjóta á Gordon og höfðu Eyjamenn nokkuð til síns máls þegar kvörtununum rigndi yfir dómarann í kjölfarið.

Staðan var 1-0 í hálfleik og Selfyssingar mættu mjög sprækir til síðari hálfleiks. Á 57. mínútu fékk Guðmunda háa sendingu innfyrir frá Evu Lind. Vindurinn hreif boltann og Guðmunda virtist ætla að missa af honum en hún náði að teygja stóru tánna í hann og lauma honum framhjá Bryndísi. 2-0.

ÍBV-liðið vaknaði upp við vondan draum, tveimur mörkum undir og á 64. mínútu minnkaði Sigríður Lára Garðarsdóttir muninn í 2-1 með góðu skoti utan teigs. Markið kveikti heldur betur í Eyjaliðinu og þær hvítu voru allsráðandi eftir þetta og áttu nokkrar stórhættulegar sóknir. Á 83. mínútu uppskáru gestirnir svo sanngjarnt jöfnunarmark þegar Cloe Lacasse fékk góða sendingu innfyrir vörn Selfoss og kláraði færið vel.

Eyjakonur virtust ætla að sætta sig við stigið og lögðust í vörn í kjölfarið. Selfoss átti hættuleg færi á lokakaflanum og meðal annars náði Dagný þrumuskalla eftir aukaspyrnu en enn og aftur fór boltinn beint í fangið á Bryndísi.

Á 90. mínútu fékk Selfoss aukaspyrnu úti á hægri kantinum. Anna María Friðgeirsdóttir tók spyrnuna og Hrafnhildur Hauksdóttir fékk frían skalla á nærstönginni. Hún sneri baki í markið og náði á einhvern ótrúlegan hátt að fleyta knettinum með kollinum aftur fyrir sig og í netið. Glæsilegt sigurmark hjá Hrafnhildi og Selfoss fagnaði 3-2 sigri, sínum fyrsta í deildinni í sumar.

Fyrri greinNýtt aðalskipulag undirritað
Næsta grein„Ég stökk upp eins og ninja“