María Rós í Selfoss

Kvennalið Selfoss í knattspyrnu hefur fengið til liðs við sig hina leikreyndu Maríu Rós Arngrímsdóttur frá Breiðabliki.

María Rós er 24 ára gömul og getur leyst báðar bakvarðarstöðurnar eða leikið sem vængmaður.

Hún hefur leikið stórt hlutverk hjá Breiðabliki undanfarin ár en hún varð meðal annars bikarmeistari með liðinu árið 2013.

María Rós hefur einnig leikið með Grindavík, Val og Aftureldingu í efstu deild.

Að sögn Gunnars Borgþórssonar, þjálfara Selfoss, er María Rós síðasti leikmaðurinn sem kemur til liðsins áður en félagaskiptaglugginn lokar á miðnætti í kvöld.

Nokkur skörð hafa verið hoggin í hópinn hjá Selfyssingum í vor en Kristrún Rut Antonsdóttir sleit liðband í innanverðu hné fyrir skömmu og verður ekki með í sumar. Áður hafði Bergrún Linda Björgvinsdóttir fengið höfuðhögg og hún má ekki hefja æfingar fyrr en í júlí í fyrsta lagi.

Fyrri greinNýtt glæsilegt fjós að Núpi 3
Næsta greinBúmenn fá samþykkta greiðslustöðvun