„Hausinn var ekki til staðar“

Keppni í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu hófst í dag. Selfoss heimsótti Fylki í Árbæinn og tapaði 2-0 eftir dapran leik.

„Ég er í sorg. Ég er mjög sár. Við vorum alls ekki að sýna okkar rétta andlit og þetta er alls ekki það sem við lögðum upp með,“ sagði Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Ég veit ekki hvað var að, ég var ekki inná, en þetta var gríðarlega andlaust og enginn sem var tilbúinn til þess að taka að sér leiðtogahlutverkið. Við ræddum þetta mikið í hálfleik, þetta var ekki taktík eða annað, hausinn var bara ekki til staðar. Við fórum ekki í tæklingar og þorðum ekki að keyra á þær,“ sagði Gunnar.

Selfyssingum er spáð góðu gengi í sumar og reikna flestir með þeim í topp fjórum í deildinni. Liðið virkaði hins vegar andlaust í dag en Gunnar telur ekki að spáin sé að hafa áhrif.

„Ég get ekki séð af hverju það ætti að trufla einhvern að vera spáð velgengni. Það er þá bara til þess að auka sjálfstraust og að menn hafi trú á stelpunum, enda hafa þær verið að standa sig mjög vel – en ekki í dag.“

Þrátt fyrir ítarlega leit fundu Selfyssingar ekki leiðina upp að Fylkismarkinu í dag. Fylkir komst yfir á 12. mínútu en Hulda Arnarsdóttir vann þá boltann í öftustu línu Selfossliðsins og lét vaða af marki af 30 metra færi, yfir Chante Sandiford sem var framarlega í teignum.

Eftir markið voru Selfyssingar meira með boltann en gekk afleitlega að finna glufur á Fylkisvörninni. Selfoss átti ekki skot að marki í fyrri hálfleik en Katrín Rúnarsdóttir var næst því að skora þegar fyrirgjöf hennar frá hægri var næstum farin í netið. Eva Ýr Helgadóttir, markvörður Fylkis, blakaði boltanum yfir á síðustu stundu.

Þegar leið á fyrri hálfleikinn dofnaði yfir Selfossliðinu og Fylkisstúlkur fóru að ógna en staðan var 1-0 í hálfleik.

Seinni hálfleikur var tíðindalaus framan af og ekkert að gerast hjá andlausum Selfyssingum. Á 64. mínútu kom besta færi Selfossliðsins þegar Eva Lind Elíasdóttir vann boltann af varnarmanni Fylkis í vítateignum en Eva Ýr markvörður sá við henni og varði vel.

Fimm mínútum síðar komst Fylkir í 2-0 eftir hornspyrnu. Eftir klafs í teignum barst boltinn út á kant þar sem Sandra Magnúsdóttir átti góða fyrirgjöf á kollinn á Berglindi Þorvaldsdóttur sem skallaði boltann í netið.

Selfyssingar reyndu hvað þeir gátu að minnka muninn á lokakaflanum en komust ekkert áleiðis. Þegar ein mínúta var eftir fékk Summer Williams fínt skotfæri í miðjum vítateig Fylkis en skot hennar fór beint á markvörðinn. Þar við sat og lokatölur urðu 2-0.

Næsti leikur Selfoss er gegn ÍBV á heimavelli á þriðjudaginn í Suðurlandsslag. ÍBV gerði 1-1 jafntefli við Þór/KA fyrir norðan í dag.

Fyrri greinFyrsta grænfánanum flaggað
Næsta greinHelgi Haralds: Grafalvarleg staða í fjármálum Árborgar