„Eina markmið dagsins var að sigra“

Selfoss hóf keppni í 1. deild karla í knattspyrnu á því að sigra BÍ/Bolungarvík 2-0 á Jáverk-vellinum í dag. Þorsteinn Þorsteinsson og Elton Barros skoruðu mörkin.

„Fyrsti leikur tímabilsins er alltaf spennandi og erfitt að spá í möguleikana fyrirfram. Eina markmið dagsins var að sigra,“ sagði Zoran Miljkovic, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is.

„Við vorum aðeins stressaðir í byrjun, en það var jákvætt stress, menn voru spenntir að byrja og sanna sig. Fyrri hálfleikurinn var ekki nógu góður en við löguðum það í hálfleik og seinni hluti leiksins var miklu betri. Við skoruðum tvö góð mörk og héldum hreinu og ég er ánægður með sigurinn,“ sagði Zoran ennfremur.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en Selfyssingar áttu álitlegri sóknir og nokkur prýðisfæri sem hefðu átt að nýtast betur. Annars var lítið að frétta í fyrri hálfleik, utan hvað það gerði snjóél undir lok hans þannig að lóusöngurinn á æfingasvæðinu þagnaði.

Selfyssingar mættu mun ákveðnari til síðari hálfleiks og uppskáru mark eftir sex mínútna leik. Selfoss fékk aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi gestanna, Maniche renndi boltanum til hliðar á Þorstein Daníel sem lét vaða af löngu færi og þræddi boltann milli manna og í netið, með viðkomu í varnarmanni.

Lítið gerðist á næstu mínútum en á 65. mínútu komust Selfyssingar í 2-0 með góðu marki úr skyndisókn frá Barros. Framherjinn Einar Ottó Antonsson geystist af stað með boltann þar sem brotið var illa á honum á miðjunni. Dómarinn beitti hins vegar hagnaðarreglunni og boltinn barst á Denis Sytnik sem lagði hann frábærlega fyrir markið á Barros sem kom á ferðinni og kláraði færið vel.

Í gleðilátum Selfyssinga steingleymdi dómarinn hins vegar að spjalda Sigurgeir Gíslason, fyrirliða BÍ/Bol fyrir, brotið á Einari Ottó, en það hefði verið seinna gula spjaldið á Sigurgeir og ávísun á snemmbúna sturtuferð.

BÍ/Bolvíkingar sóttu nokkuð í sig veðrið á lokakaflanum en Selfossvörnin gaf ekki nein færi á sér og Selfyssingar voru líklegri til þess að bæta við.

Fleiri urðu mörkin þó ekki og Selfyssingar, sem litu alveg ágætlega út í leiknum, fögnuðu góðum sigri.

Selfoss mætir HK á heimavelli næstkomandi föstudag en HK lagði lærisveina Gunnars Guðmundssonar í Gróttu 0-2 í gærkvöldi.

Fyrri greinGuðfinna kjörin formaður BÍL
Næsta greinStokkseyri tapaði stórt