„Við vorum mjög vel peppaðir“

„Þeir byrjuðu mjög vel, af miklum krafti en við náðum að veðra storminn og komum til baka,“ sagði Ari Gylfason, einn af máttarstólpum FSu liðsins í körfubolta eftir sigurinn á Hamri í kvöld.

„Við náðum að auka forskotið í seinni hálfleik og héldum þeim svo nokkuð vel frá okkur. En það var erfitt að missa Collin útaf með fimm villur í lokin því Hamarsmennirnir voru ekkert búnir að gefast upp. Við vorum fimmtán stigum yfir um miðjan 4. leikhluta og þá kom smá slaki á okkur. Þeir komu til baka og gáfu okkur leik í endann. Ég viðurkenni að það var smá stress en við náðum að klára þetta og það var mjög ljúft. Þetta er besta tilfinning sem ég hef fundið,“ sagði Ari í samtali við sunnlenska.is.

Hann sagði einngi að spennustigið hafi verið hátt fyrir leikinn. „En ég held að menn hafi aldrei verið jafn tilbúnir í neinn leik eins og í kvöld. Við vorum mjög vel peppaðir fyrir þessa áskorun. Það sýndi sig líka. Hver einn og einasti leikmaður var að leggja sig fram. Arnþór [Tryggvason] kom t.d. inná í blálokin og skoraði stóra körfu. Þetta sýnir að menn eru að spila fyrir hvern annan og menn þekkja sitt hlutverk í liðinu. Það var þannig sem við komumst í gegnum þessa seríu,“ sagði Ari sem stefnir á að leika með FSu í efstu deild á næsta tímabili.

„Það er mjög líklegt, við sjáum til. Núna er frábært tímabil að baki, eitt það skemmtilegasta sem ég hef tekið.“

Fyrri greinFSu í úrvalsdeildina eftir magnaðan sigur
Næsta grein„Maður þarf víst stundum að bíta í það súra“