Selfyssingar sannfærandi – Tryggðu sér oddaleik

Karlalið Selfoss vann öruggan sigur á Fjölni í kvöld í umspili 1. deildarinnar í handbolta. Staðan í einvíginu er því 1-1 og úrslitin ráðast í oddaleik í Grafarvogi á miðvikudag.

Selfyssingar byrjuðu vel í leiknum, spiluðu fína vörn og leiddu 5-2 þegar rúmar tíu mínútur voru liðnar. Munurinn varð mestur fimm mörk í fyrri hálfleik en þegar 25 mínútur voru liðnar höfðu Fjölnismenn aðeins skorað fimm mörk, gegn tíu mörkum Selfyssinga. Þá komu þrjú Fjölnismörk í röð og staðan var 12-8 í hálfleik.

Það var lítið skorað framan af seinni hálfleik en Fjölnir náði að minnka muninn í tvö mörk, 13-11, snemma í hálfleiknum. Munurinn hélst í tveimur mörkum lengi vel en á síðustu tíu mínútunum náðu Selfyssingar að auka forskotið, dyggilega studdir af háværum stuðningsmönnum sínum. Reyndar stóð stuðningslið Fjölnis sig vel líka og það var gaman að sjá gömlu góðu stemmninguna í þétt setnu íþróttahúsinu á Selfossi.

Lokatölur urðu 24-20 og sigur Selfoss var ekki í teljandi hættu á lokamínútunum.

Hörður Másson var markahæstur Selfyssinga með 8/1 mörk, Teitur Örn Einarsson og Árni Geir Hilmarsson skoruðu 3, Hergeir Grímsson, Árni Guðmundsson, Sverrir Pálsson og Matthías Örn Halldórsson 2 og þeir Ómar Helgason og Alexander Egan skoruðu sitt markið hvor.

Sebastian Alexandersson varði 12 skot í marki Selfoss og var með 44% markvörslu og Helgi Hlynsson varði 2 skot og var með 29% markvörslu.

Oddaleikur Selfoss og Fjölnis verður í Grafarvogi á miðvikudag kl. 19:30.

Fyrri greinSindri Pálma farinn frá Esbjerg
Næsta grein„Strákarnir voru að berjast fyrir lífinu“