Hamar og FSu byrja á sigri

Úrslitakeppni 1. deildar karla í körfubolta hófst í kvöld. Hamar og FSu sigruðu bæði en tvo sigra þarf til að komast í úrslitarimmuna um sæti í úrvalsdeild.

Hamar sigraði ÍA í Frystikistunni í Hveragerði. Leikurinn var jafn framanaf en ÍA náði góðu forskoti fyrir leikhlé, 32-43. Hvergerðingar gerðu hins vegar áhlaup í síðasta fjórðungnum og sneru leiknum sér í vil á síðustu þremur mínútunum.

Staðan var 58-64 þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir en þá kom 15-2 árás frá Hvergerðingum og staðan orðin 73-66 þegar níu sekúndur voru eftir af leiknum.

Julian Nelson var besti maður vallarins með 31 stig, 16 fráköst og 5 varin skot. Örn Sigurðarson skoraði 13 stig og tók 10 fráköst, Bjarni Rúnar Lárusson skoraði 12 stig og Þorsteinn Gunnlaugsson 8, auk þess sem hann tók 14 fráköst.

Næsti leikur Hamars og ÍA verður á Skaganum á sunnudaginn og oddaleikur í Hveragerði á þriðjudag, ef þörf er á.

Öruggt hjá FSu
FSu átti í minni vandræðum þegar liðið tók á móti Val í Iðu. Selfyssingar höfðu góð tök á leiknum frá upphafi og leiddu 57-34 í hálfleik. Skólapiltar gerðu svo endanlega út um leikinn í 3. leikhluta en staðan að honum loknum var 93-52. Lokatölur urðu 106-85.

Ari Gylfason var stigahæstur hjá FSu með 22 stig, Collin Pryor skoraði 20 stig og tók 13 fráköst, Hlynur Hreinsson skoraði 19 stig, Birkir Víðisson 15 og Maciej Klimaszewski 12.

Næsti leikur FSu og Vals verður að Hlíðarenda á sunnudaginn og oddaleikur í Iðu á þriðjudag, ef þörf er á.

Fyrri greinRaw valhnetupestó með kúrbítsspagettí
Næsta greinSjö umsækjendur um skólastjórastöðu