Átta Mílanmenn töpuðu með átta mörkum

ÍF Mílan tapaði 25-17 fyrir Hömrunum á Akureyri í 1. deild karla í handbolta í dag. Átta leikmenn voru á skýrslu hjá Mílan og því var spilaður rólegur bolti.

Mílan komst í 0-3 en þá hrukku Hamrarnir í gang og skoruðu sjö mörk í röð. Mílan minnkaði muninn í 7-6 þegar 25 mínútur voru liðnar af fyrri hálfleik en staðan var 10-8 í leikhléi.

Hamrarnir skoruðu tvö fyrstu mörkin í síðari hálfleik og juku forskot sitt jafnt og þétt í kjölfarið.

Örn Þrastarson var markahæstur hjá Mílan með átta mörk, Atli Kristinsson skoraði sex mörk og þeir Árni Felix Gíslason, Eyþór Jónsson og Einar Sindri Ólafsson skoruðu allir eitt mark.

Bogi Pétur Thorarensen varði 10 skot í marki Mílan og var með 29% markvörslu og Atli Kristinsson varði eitt vítaskot og var með 50% markvörslu.

Fyrri greinÖkklabrotin í Ölfusinu
Næsta greinFallegur haförn við Hólá