Þórsarar flengdu bikarmeistarana

Þór Þorlákshöfn fékk nýkrýnda bikarmeistara Stjörnunnar í heimsókn í Domino’s-deild karla í körfubolta í gærkvöldi. Þórsarar unnu stórsigur, 111-79.

Kennslustund Þórsara hófst strax í 1. leikhluta en Þór leiddi að honum loknum, 27-13, og munurinn var orðinn tuttugu og tvö stig í hálfleik, 59-37.

Þórsarar voru hvergi nærri hættir, juku forskotið til muna í 3. leikhluta og sátu á þrjátíu og þriggja stiga forystu þegar síðasti leikhlutinn hófst, 94-61. Þarna var allur vindur úr bikarmeisturunum og fjórði leikhlutinn aðeins formsatriði.

Tómas Tómasson var stigahæstur hjá Þór með 25 stig, Emil Karel Einarsson skoraði 21, Grétar Ingi Erlendsson 20, Darrin Govens 12, Nemanja Sovic 11, Þorsteinn Már Ragnarsson 7, Jón Jökull Þráinsson og Oddur Ólafsson 5, Halldór Garðar Hermannsson 3 og Sveinn Hafsteinn Gunnarsson 2.

Þór er í 6. sæti deildarinnar með 20 stig en Stjarnan í 4. sætinu með 22 stig.

Fyrri greinÓttast um fisflugvél við Þingvallavatn
Næsta greinHamar frestaði gleðinni hjá Hetti