Of mörg mistök í vörn og sókn

ÍF Mílan tók á móti lærisveinum Arnars Gunnarssonar í Fjölni í 1. deild karla í handbolta í Vallaskóla á Selfossi í kvöld. Gestirnir voru mun sprækari og sigruðu 25-31.

Leikurinn fór mjög hægt af stað og jafnt var á öllum tölum upp í 4-4, þegar tæpar fimmtán mínútur voru liðnar af leiknum. Þá skoruðu Fjölnismenn fjögur mörk í röð, en gestirnir refsuðu Mílanmönnum eftir mistök í sókninni með mörkum úr fimm hraðaupphlaupum á stuttum tíma.

Í kjölfarið náði Fjölnir mest sex marka forskoti, 9-15, en Mílan náði að minnka muninn niður í þrjú mörk, 13-16, eftir að Örn Þrastarson raðaði inn fjórum mörkum í röð. Það voru hins vegar gestirnir sem skoruðu síðasta mark fyrri hálfleiks og leiddu í leikhléi, 13-17.

Mílan byrjaði betur í seinni hálfleik en vantaði herslumuninn til að brúa bilið. Munurinn hélst í 3-4 mörkum allt þar til tíu mínútur voru eftir af leiknum að forskot Fjölnis jókst. Mílan gerði mörg mistök í sókninni og varnarleikurinn var ekki nógu góður sem setti markverði liðsins oft í erfiða stöðu. Að lokum skildu sex mörk liðin að.

Örn Þrastarson var markahæstur hjá Mílan með 7 mörk, Atli Kristinsson skoraði 5, Árni Felix Gíslason og Ársæll Einar Ársælsson 3, Eyvindur Hrannar Gunnarsson 2, Ívar Grétarsson 2/2, Magnús Már Magnússon og Eyþór Jónsson 1 og Rúnar Hjálmarsson 1/1.

Ástgeir Sigmarsson varði 7 skot í marki Mílan og var með 23% markvörslu og Stefán Ármann Þórðarson varði 2 skot og var með 20% markvörslu.

Mílan er í 8. sæti 1. deildarinnar með 5 stig en Fjölnismenn hafa nú 19 stig eins og Selfoss en liðin eru í 3. og 4. sæti.

Fyrri greinRaw möndluorkubitar
Næsta greinSendir eldri borgarana á Örkina