Helgi öflugur í góðum útisigri Selfoss

Selfyssingar gerðu góða ferð á sterkasta útivöll landsins og lögðu sprækt lið Mílan í 1. deild karla í handbolta í Vallaskóla í kvöld. Lokatölur urðu 19-24 í stórskemmtilegum leik.

Selfyssingar tóku völdin strax í upphafi og leiddu 3-7 þegar fyrri hálfleikur var rúmlega hálfnaður. Mílan gekk illa að ráða við framliggjandi vörn Selfyssinga og skoruðu þeir grænu nánast aðeins af vítalínunni. Á fyrstu 25 mínútum leiksins komu fjögur af sex mörkum Mílan úr vítum en staðan var þá 6-11. Munurinn hefði verið minni ef Mílan hefði nýtt vítaskot sín betur en tvö fóru forgörðum í fyrri hálfleik. Það munar um minna í stórleik sem þessum.

Staðan var 7-12 í hálfleik en Mílan skoraði fyrstu tvö mörkin í síðari hálfleik og minnkaði muninn í þrjú mörk eftir að Bogi Pétur Thorarensen hafði lokað marki Mílan um stund. Selfyssingar höfðu þó áfram ágæt tök á leiknum og munurinn var um fimm mörk lengst af. Mílan hökti áfram á lélegu brokki en þegar tíu mínútur voru eftir tók hestamaðurinn og liðsstjóri Mílan, Viðar Ingólfsson, leikhlé og skipti um gangtegund. Á fljúgandi skeiði fórnuðu heimamenn markmanninum og fjölguðu í sókninni. Það réð vörn Selfyssinga illa við og Mílan minnkaði muninn niður í tvö mörk, 18-20, þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum.

Kaldur hrollur fór niður eftir bakinu á Selfyssingum og stuðningsmenn liðsins í stúkunni þögnuðu á meðan það var hneggjandi stemmning í herbúðum Mílan. Gestirnir þurftu þó ekki að örvænta lengi því langbesti maður vallarins í kvöld, Helgi Hlynsson markvörður Selfoss, tók í taumana og varði vítaskot frá Ívari Grétarssyni þegar tvær og hálf mínúta var eftir af leiknum. Þar fór síðasta hálmstráið hjá Mílan og Selfyssingar juku muninn jafnharðan í þrjú mörk. Þegar upp var staðið skildu fimm mörk liðin að og leikmennirnir féllust í faðma að loknum drengilega spiluðum leik.

Ívar Grétarsson var markahæstur hjá Mílan með 7/5 mörk, Atli Kristinsson skoraði 4/1, Magnús Már Magnússon 3, Eyvindur Hrannar Gunnarsson 2 og þeir Einar Sindri Ólafsson, Ingvi Tryggvason og Sævar Þór Gíslason skoruðu allir 1 mark.

Ástgeir Sigmarsson varði 11 skot í marki Mílan og var með 39% markvörslu og Bogi Pétur Thorarensen varði 6/1 skot og var með 46% markvörslu.

Andri Már Sveinsson var markahæstur hjá gestunum með 6/2 mörk, Hergeir Grímsson og Elvar Örn Jónsson skoruðu báðir 4 mörk, Guðjón Ágústsson og Hörður Másson 3 og þeir Gunnar Páll Júlíusson, Ómar Vignir Helgason, Jóhann Erlingsson og Árni Guðmundsson skoruðu allir 1 mark.

Maður leiksins var hins vegar markvörður Selfyssinga, Helgi Hlynsson, sem varði 23/1 skot og var með 56% markvörslu.

Selfoss er nú í 4. sæti deildarinnar með 14 stig en Mílan í því 7. með 5 stig.

Fyrri greinStórt tap í Vesturbænum
Næsta greinHelgi segir D-listann beita brögðum – Rangt, segir Ásta