Loksins sigur hjá Mílan

Eftir langa bið krækti ÍF Mílan loks í sigur í 1. deild karla í handbolta, þegar ÍH kom í heimsókn í Vallaskóla í kvöld.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en staðan var 11-10 í hálfleik. Í undanförnum leikjum hefur liði Mílan runnið þrek þegar liðið hefur á leikina en í kvöld héldu þeir sínu striki í síðari hálfleik, juku forskotið og sigruðu með þriggja marka mun, 25-23.

Atli Kristinsson var markahæstur hjá Mílan með 6 mörk, Ívar Grétarsson, Eyvindur Hrannar Gunnarsson og Eyþór Jónsson skoruðu allir 3 mörk, Viðar Ingólfsson, Ársæll Einar Ársælsson og Guðmundur Garðar Sigfússon skoruðu 2 mörk og þeir Magnús Már Magnússon, Róbert Daði Heimisson, Ketill Hauksson og Sævar Þór Gíslason skoruðu allir eitt mark.

Leynivopn ÍH, Kári Jónsson, komst ekki á blað í kvöld. Krókurinn sem Mílan beitti á móti bragði ÍH var að spila lög með 200 þúsund naglbítum fyrir leik og virðist það hafa slegið Kára og félaga út af laginu.

Fyrri greinVel heppnuð uppskeruhátíð Geysis
Næsta greinSkora á Bjarna að tilnefna Unni Brá