ÍH teflir fram leynivopni gegn Mílan

ÍF Mílan tekur á móti ÍH í Vallaskóla í kvöld í stórleik í 1. deild karla í handbolta. Sunnlenska.is hefur komist á snoðir um leynivopn sem ÍH hyggst beita í kvöld.

Selfyssingurinn Kári Jónsson hefur haft félagaskipti yfir í ÍH og mun spila sinn fyrsta leik fyrir félagið í kvöld.

“Kára er margt til lista lagt. Hann er bassaleikari hljómsveitarinnar 200.000 naglbítar auk þess sem hann gerði sögufrægan sjónvarpsþátt, Úti að grilla með Kára og Villa,” sagði Ásgeir Gunnarsson, þjálfari ÍH í samtali við sunnlenska.is.

Kári er reyndar búinn fleiri kostum sem prýða góðan handboltamann en hann er fyrrum leikmaður KA og á fjölmarga leiki að baki í efstu deild. “Auk þess spilaði hann með KA í Meistaradeild Evrópu og er fyrsti leikmaður sögunnar hjá ÍH sem hefur spilað í Meistaradeildinni,” bætir Ásgeir við.

Kári býr á Selfossi og er því eiginlega að spila á heimavelli. Hann hefur ekki spilað mikinn handbolta undanfarin ár en tekur nú fram skóna og harpixið og stefnir á að eiga góðan leik í kvöld. Leikurinn ætti því að verða æsispennandi.

ÍH er í 7. sæti deildarinnar með 4 stig en Mílan í 8. sæti með 3 stig. Það er því ljóst að mikið er í húfi þegar liðin mætast kl. 19:30 í Vallaskóla í kvöld.

Fyrri greinUppkjaftaðir ungfolar og niðurníddir gamalgraddar
Næsta greinOpinn fundur með Árna Páli á laugardaginn