Tíu marka tap í bikarnum

Karlalið Selfoss er úr leik í bikarkeppninni í handbolta eftir 17-27 tap gegn Valsmönnum í íþróttahúsi Vallaskóla í kvöld. Eftir jafnan fyrri hálfleik duttu Valsmenn í gír í þeim síðari.

Staðan var ennþá 1-1 eftir tæplega fimmtán mínútna leik en Selfyssingar gátu þakkað markverðinum Sebastian Alexanderssyni fyrir að vera ekki undir því hann varði eins og berserkur framan af leik, m.a. tvö vítaköst. Selfyssingar komust hins vegar lítið áleiðis gegn Valsvörninni en Kristján Kristjánsson, markvörður Vals, var líka í stuði og varði vel allan leikinn.

Jafnt var á öllum tölum upp í 5-5 en í kjölfarið náðu Valsmenn tveggja marka forskoti, 5-7 þegar tæpar 26 mínútur voru liðnar af leiknum og gestirnir leiddu í hálfleik 7-9.

Valur hóf seinni hálfleikinn á 1-5 áhlaupi og staðan því orðin 8-14. Þegar tólf mínútur voru liðnar af síðari hálfleik var munurinn orðinn sjö mörk, 10-17, og gestirnir búnir að gera út um leikinn með þessum góða upphafskafla í síðari hálfleik. Valur náði mest tíu marka forskoti þegar þrjár mínútur voru til leiksloka en lokatölur urðu 17-27.

Matthías Örn Halldórsson var markahæstur Selfyssinga með 5 mörk, Egidijus Mikalonis skoraði 3, Ómar Vignir Helgason og Jóhann Erlingsson 2 og þeir Gunnar Páll Júlíusson, Elvar Örn Jónsson, Sævar Ingi Eiðsson, Gunnar Ingi Jónsson og Andri Már Sveinsson skoruðu allir 1 mark.

Sebastian Alexandersson varði 16/2 skot í marki Selfoss og var með 43% markvörslu.

Fyrri greinStrákarnir okkar: Viðar markakóngur í Noregi
Næsta greinÁrborg frestar ákvörðun sinni um aðild