Guðjón og Kristinn þjálfa Árborg

Knattspyrnufélag Árborgar hefur gengið frá ráðningu á þjálfurum fyrir næsta keppnistímabil en æfingar hófust hjá meistaraflokki félagsins í síðustu viku.

Guðjón Bjarni Hálfdánarson mun áfram þjálfa liðið en hann er að hefja sitt fjórða keppnistímabil í brúnni hjá Árborg. Þá hefur Kristinn Þráinn Kristjánsson verið ráðinn aðstoðarþjálfari í stað Báru Kristbjargar Rúnarsdóttur, sem gaf ekki kost á sér til áframhaldandi þjálfarastarfa. Hún mun þó áfram vera sérlegur ráðgjafi fyrir þjálfarateymið hvað varðar leikskipulag.

Kristinn Þráinn er 23 ára útskrifaður ÍAK einkaþjálfari frá Keili 2013 og hefur starfað sem slíkur síðan þá. Hann hefur mest séð um styrktarþjálfun fyrir íþróttafólk úr ýmsum greinum með góðum árangri. Kristinn stundar nú nám í íþróttafræði við Háskólann í Reykjavík til að auka þekkingu sína og styrkja sig í komandi starfi.

„Ég er fullur eftirvæntingar fyrir því að takast á við þetta verkefni. Eftir að hafa spjallað við Guðjón þjálfara og heyrt að liðið sé tilbúið að taka næsta skref og setja stefnuna upp um deild á næsta tímabili þá var ekki hægt að neita þessu tækifæri. Mín markmið sem aðstoðarþjálfari er að hjálpa leikmönnum að taka sína þjálfun á næsta stig og að liðið verði með sterkasta móti þegar tímabilið hefst,“ sagði Kristinn Þráinn í samtali við sunnlenska.is.

Í tilkynningu frá stjórn Árborgar segir að stjórnin bindi miklar vonir við þjálfarateymið og hlakkar til komandi tímabils þar sem allir íbúar Árborgar muni styðja liðið til frækinna sigra.

Fyrri greinVel heppnað strengjasveitarmót á Akureyri
Næsta greinSpennandi tilraun í Sandlækjarmýri