Hart barist í lokaumferðinni

Lokaumferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu fór fram í dag. Selfoss og Valur gerðu 2-2 jafntefli á JÁVERK-vellinum og Selfoss lauk keppni í 4. sæti deildarinnar.

Valur sótti meira í fyrri hálfleik en á 13. mínútu komust Selfyssingar yfir úr fyrsta færi leiksins. Alexa Gaul tók þá aukaspyrnu eftir að brotið hafði verið á Evu Lind Elíasdóttur á vinstri kantinum. Boltinn barst inn á teiginn þar sem Guðmunda Óladóttir flikkaði honum að marki, Birna Kristjánsdóttir, markvörður Vals, hélt ekki boltanum og Blake Stockton náði að moka honum yfir línuna.

Valur hélt áfram að sækja en náði ekki að skapa sér teljandi færi úr opnum leik. Hins vegar voru hornspyrnur gestanna stórhættulegar og þurftu Selfyssingar ítrekað að hafa sig alla við til þess að varna því að knötturinn færi yfir marklínuna.

Pressa Valsliðsins jókst undir lok fyrri hálfleiks og þær vínrauðu gátu loksins andað léttar þegar dómari leiksins flautaði til leikhlés, 1-0 í hálfleik.

Valsmenn voru þó ekki lengi að jafna þegar flautað hafði verið til leiks í síðari hálfleik en strax á 2. mínútu spiluðu þær sig snyrtilega í gegnum vörn Selfoss. Boltinn small í stönginni á Selfossmarkinu og aftur út í teiginn og þar var Svava Rós Guðmundsdóttir fljótust að átta sig og varnarmenn Selfoss fylgdust með henni skora auðveldlega.

Valur hélt áfram að sækja og Gaul átti að minnsta kosti tvær mjög góðar markvörslur auk þess sem Stockton átti stórleik í vörn Selfoss.

Á 64. mínútu slapp Guðmunda ein innfyrir Valsvörnina eftir misheppnaða sendingu gestanna í öftustu víglínu. Guðmunda, sem var mjög spræk á köflum í leiknum, átti ekki í vandræðum með að setja boltann framhjá Birnu og kom Selfyssingum aftur yfir.

Sú forysta varði ekki nema í nokkrar sekúndur því strax í næstu sókn fengu Valskonur aukaspyrnu. Boltinn barst inn á Ólínu Viðarsdóttur sem afgreiddi hann glæsilega á lofti í netið.

Síðustu tuttugu mínúturnar var hart barist um allan völl og bæði lið áttu álitlegar sóknir inn á milli. Fleiri urðu mörkin þó ekki og niðurstaðan 2-2 jafntefli.

Fyrri greinForeldrafélagið vill heyrnarhlífar fyrir yngstu börnin
Næsta greinGunnar áfram með Selfossliðið