Öruggur Selfossigur í Krikanum

Kvennalið Selfoss vann öruggan 1-4 sigur á FH í Pepsi-deildinni í knattspyrnu þegar liðin mættust í Kaplakrika í dag.

Selfyssingar voru mun sterkari í fyrri hálfleik og áttu nokkur ágæt færi áður en liðið komst verðskuldað yfir á 36. mínútu. Guðmunda Óladóttir átti þá góðan sprett upp að endamörkum, sendi boltann fyrir og Eva Lind Elíasdóttir skoraði eftir klafs í vítateig FH.

Staðan var 0-1 í hálfleik en strax á 3. mínútu síðari hálfleiks náðu FH-ingar að jafna metin. Aðeins fjórum mínútum síðar komust Selfyssingar yfir aftur og nú var það Guðmunda sem skoraði glæsilegt skallamark eftir aukaspyrnu frá Ernu Guðjónsdóttur.

Selfoss gerði svo endanlega út um leikinn þremur mínútum síðar þegar Eva Lind skoraði með skalla eftir aukaspyrnu Alexu Gaul frá miðlínu.

Eftir þessa fjörugu byrjun í síðari hálfleik voru Selfyssingar mun líklegri til þess að bæta við mörkum heldur en FH að minnka muninn. Lokamark leiksins kom á 83. mínútu þegar Guðmunda tók annan góðan sprett og sendi á Kristrúnu Rut Antonsdóttur sem skoraði af öryggi. Kristrún fékk svo dauðafæri til að bæta við fimmta markinu fimm mínútum síðar en skaut yfir úr ákjósanlegu færi.

Eftir leiki dagsins er Selfoss í 4. sæti deildarinnar og á ennþá möguleika að ná Þór/KA í 3. sætinu. Selfoss mætir Val í lokaumferðinni á heimavelli á laugardaginn.

Fyrri greinBrotist inn í sumarhús
Næsta greinTvennir tímar hefja vetrarstarfið