„Þetta verður barátta í hverjum leik“

„Þetta var köflótt. Við vorum lengi að komast í gang og komum svo með mjög fínan kafla um miðjan fyrri hálfleikinn. Síðan lendum við í vandræðum í seinni hálfleik og hleypum þeim óþarflega mikið inn í leikinn.“

Þetta sagði Gunnar Gunnarsson, þjálfari karlaliðs Selfoss í handbolta, eftir sigurinn á Hömrunum í kvöld. Selfoss vann 29-20 og hafði góð tök á gestunum stærstan hluta leiksins en heimamenn slökuðu þó verulega á klónni í upphafi síðari hálfleiks. Gunnar vildi ekki meina að sínir menn hefðu verið kærulausir.

„Nei, það verður ekki af þeim tekið að það er fullt af sprækum strákum í Hömrunum og góðar skyttum. Þeir nýttu sér þetta vel og skutu vel á markið. Þeir slógu okkur líka út af laginu í sókninni með því að taka tvo menn úr umferð og þá vantaði okkur yfirvegun. En það var samt gott að koma til baka og klára leikinn með stæl,“ sagði Gunnar.

Selfossþjálfarinn segir að veturinn leggist vel í sig en Selfyssingum er spáð 2. sæti í deildinni, á eftir Víkingum. Í næstu sætum í spánni eru Grótta og Fjölnir.

„Strákarnir eru búnir að æfa vel í sumar og það er mikið af ungum og efnilegum strákum að koma inn í hópinn og taka þátt. Það eru reyndar breytingar á liðinu og við missum mikla pósta en á móti kemur að við erum að fá mann eins og Matthías Örn inn. Hann datt út meiddur í byrjun móts í fyrra og það er eiginlega bara eins og að fá nýjan leikmann að fá hann til baka. Þeir verða bara að stíga upp þessir strákar, eins og þeir hafa verið að gera í æfingaleikjum á undirbúningstímabilinu og hérna í kvöld. Það er komið að þeim að taka við þessu,“ segir Gunnar.

Selfoss á hörkuleiki framundan en næstu leikir liðsins eru gegn Víkingum, Gróttu og Fjölni, liðunum sem spáð er í toppbaráttu með Selfyssingum. „Næstu leikir verða mjög erfiðir en verkefnið er spennandi. Við mætum Víkingunum í næsta leik heima og það er ekkert óeðlilegt að þeim sé spáð efsta sæti, komnir með svakalegan þjálfaradúett og góðan mannskap. En það eru fleiri lið í deildinni. Þetta verður barátta í hverjum leik og deildin mun ráðast á því hverjir missa einbeitinguna einhversstaðar á leiðinni. Það er það sem þetta snýst um.“

Fyrri greinNeyðarbúnaður fluttur að Búrfelli og Sultartanga
Næsta greinUm 100.000 fjár slátrað á Selfossi í haust