„Ég verð bara að vera þolinmóður“

Selfyssingurinn Viðar Örn Kjartansson, markahæsti leikmaður norsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu, lék síðustu mínúturnar í landsleiknum gegn Tyrkjum í kvöld en fékk ekki tíma til að setja mark sitt á leikinn.

Viðar lék uppbótartímann eftir að Jóni Daða Böðvarssyni var skipt af velli og sagði Viðar í samtali við sunnlenska.is að hann hefði að sjálfsögðu viljað spila meira í kvöld.

„Ég reiknaði með því að fá að spila meira í þessum leik en kannski voru það taktískir hlutir sem réðu því að ég spilaði minna. Leikurinn þróaðist líka þannig að það þurfti ekki að skipta mikið. Liðið var frábært í dag og allir inni á vellinum mjög góðir enda unnum við flottan sigur,“ sagði Viðar Örn eftir leik.

„Ég verð bara að vera þolinmóður og halda áfram að spila vel með mínu félagsliði í Noregi. Þá fæ ég örugglega meiri spiltíma. Það er mjög gaman af vera hluti af þessu frábæra liði og vonandi getum við haldið áfram að gera svona vel eftir þessa frábæru byrjun,“ sagði Viðar.

Rakarafjölskyldan á Selfossi átti fleiri fulltrúa á keppnisvellinum í kvöld því mágur Viðars, Pálmi Þór Ásbergsson, var dreginn út í hálfleik og fékk færi á að hitta þverslána með skoti frá vítateigsboganum. Hann stóðst þá þraut með prýði og smellti boltanum í þverslána.

„Ég sá að hann hitti í slána og tók fagnið mitt. Þetta var glæsilegt hjá honum. Ég held að hann hafi unnið utanlandsferð þannig að það er eins gott fyrir hann að nýta hana til Noregs,“ sagði Viðar léttur að lokum.

Fyrri grein„Fékk mjúka tilfinningu í líkamann eftir leik“
Næsta grein„Mílan er komið til að vera“