Selfyssingar nánast búnir að bjarga sér

Selfyssingar fóru langleiðina með að bjarga sér frá falli úr 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld þegar liðið lagði KV 3-1 í fallbaráttuslag á JÁVERK-vellinum.

Það var ljóst í fyrri hálfleik að það var mikið undir hjá liðunum sem voru fyrir leikinn í 10. og 11. sæti deildarinnar. Bæði lið fóru varlega í upphafi leiks en Selfyssingar voru líklegri til að skora og fóru illa með nokkur góð færi.

Staðan var 0-0 í hálfleik og Selfyssingar fengu tvö prýðisfæri á upphafsmínútum síðari hálfleiks. Ísinn var þó ekki brotinn fyrr en á 76. mínútu. Selfyssingar áttu þá fína skyndisókn og Andri Björn Sigurðsson renndi boltanum inn á Ragnar Þór Gunnarsson í vítateig KV. Ragnar lék á varnarmann og renndi boltanum svo hnitmiðað í netið hjá KV.

Strax í næstu sókn gestanna björguðu Selfyssingar á línu en fjörið var bara rétt að byrja. Selfoss fékk hornspyrnu á 87. mínútu þar sem boltinn barst á Elton Barros. Hann sneiddi boltann að marki en Andra Birni tókst að verja á línu frá Barros. Luka Jagacic náði hins vegar frákastinu og potaði tánni í boltann og kom honum í netið.

Tveimur mínúrum síðar skildu KV menn allt galopið eftir í öftustu víglínu og Ragnar Þór og Andri Björn geystust fram. Ragnar sendi inn á Andra sem vippaði boltanum skemmtilega yfir markvörð gestanna og staðan skyndilega orðin 3-0. Gestinir náðu að minnka muninn í 3-1 einni mínútu síðar með auðveldu skoti úr vítateignum en nær komust gestirnir ekki þrátt fyrir þunga sókn og Selfoss fagnaði sigri.

Selfoss hefur nú 25 stig í 8. sæti og nú skilja sjö stig að Selfoss og KV sem situr í 11. sæti.

Fyrri greinHamarsmenn fallnir
Næsta greinSelfosskonur skora á Stjörnuliðið