Saga kvennaknattspyrnunnar á Selfossi – I

Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum sem fylgst hafa með knattspyrnunni á Selfossi í sumar að meistaraflokkur kvenna tryggði sér á dögunum sæti í úrslitaleik Borgunarbikarsins.

Þetta er í fyrsta sinn í sögu félagsins sem liðið kemst svo langt og verður því að teljast frábær árangur sérstaklega í ljósi þess að það hefur lengi vel gengið erfiðlega að starfrækja meistaraflokk kvenna á Selfossi og í raun ekki nema 5 ár síðan hann var endurvakinn á ný úr dvala.

Í ljósi þessa flotta árangurs er ekki úr vegi að fara yfir sögu meistaraflokks kvenna. Jóhann Ólafur Sigurðsson, fyrrum markvörður karlaliðs Selfoss í knattspyrnu, hefur tekið saman áhugaverða pistla þar sem saga kvennaknattspyrnunnar á Selfossi er rakin. Fyrstu tveir pistlarnir hafa þegar verið birtir í Sunnlenska fréttablaðinu og verða endurbirtir hér á sunnlenska.is í dag og á morgun. Síðasti pistillinn birtist næstkomandi föstudag, en á laugardaginn mætir Selfoss Stjörnunni í úrslitaleik Borgunarbikarsins á Laugardalsvellinum.

En byrjum á byrjuninni.

Þrátt fyrir að knattspyrnudeild Ungmennafélags Selfoss hafi verið stofnuð þann 15. desember 1955 var það ekki fyrr en sumarið 1984 að meistaraflokkur kvenna sendi í fyrsta sinn lið til keppni. Það sumar tók liðið þátt í Íslandsmóti og HSK-móti, en um veturinn höfðu inniæfingar undir stjórn Gylfa Þ. Gíslason hafist. Feðgarnir Guðmundur Axelsson og Páll Guðmundsson tóku síðan við þjálfuninni í nokkurn tíma eða þangað til að Lárus Jónsson var ráðinn aðalþjálfari liðsins. Liðið lék í B-riðli Íslandsmótsins og lenti í fimmta sæti af sex liðum sem verður að teljast nokkuð góður árangur. 9-0 sigur á nágrönnunum úr Hveragerði var án efa einn af hápunktum sumarsins. Þess má geta að Stjarnan, andstæðingar Selfoss í úrslitum Borgunarbikarsins, lenti í neðsta sæti riðilsins.

Selfoss mætti aftur til leiks í Íslandsmótinu að ári, með Þórarinn Guðnason sem þjálfara. Það sumar var heldur erfiðara en það fyrsta, liðinu gekk illa og vann aðeins einn leik af tíu og töpuðu hinum. Um þetta leyti voru um tuttugu stelpur viðloðandi flokkinn og oftast í kringum 14-15 á hverri æfingu.

Í lok sumars 1986 tók Gylfi Þ. Gíslason við þjálfun liðsins af Lúðvíki Tómassyni og þá virtist komast ákveðinn stöðugleiki á leik liðsins. Eftir að hafa endað í fjórða sæti af sex liðum 1986 fóru þær á flug ári seinna og náðu sínum besta árangri, 13 stigum í átta leikjum. Þess má geta að þetta ár skoraði Þórunn Björnsdóttir fyrstu þrennu á Íslandsmóti í sögu kvennaliðsins á Selfossi, í 5-1 sigri á Skallagrími.

Að mati Laufeyjar Guðmundsdóttur, eins af leikmönnum liðsins, var liðið á þessum tíma mjög gott: „Það voru mjög margir góðir leikmenn í liðinu, og sumar sem hefðu klárlega átt erindi í landsliðið. Við vorum bara svo nýjar í þessu öllu saman og af mörgu leyti einhverjum skrefum á eftir liðunum í Reykjavík.“ Það verður því að leiða líkur að því að árangur liðsins sumarið 1988 hafi því valdið öllum leikmönnum liðsins vonbrigðum. Stærsta tap í sögu liðsins leit dagsins ljós, 0-18 tap gegn Breiðablik. Liðið endaði í neðsta sæti með 3 stig.

Mættu aftur til keppni 1993
Selfoss sendi ekki meistaraflokk kvenna til keppni ári síðar og gerði það í raun ekki aftur fyrr en sumarið 1993. Það var þó ekki gengi liðsins árið áður sem réði því, heldur var það aðallega mannekla að mati Laufeyjar: „Það fóru margar stelpur frá Selfossi á þessum tíma og þá aðallega í nám til Reykjavíkur. Við reyndum að halda þessu áfram, en það voru á þessum tíma engir yngri flokkar þangað sem við gátum sótt leikmenn.“

Árið 1993 var komin pressa á að senda aftur lið til keppni, en þá hafði góður hópur verið að æfa í einhvern tíma. Ásdís Viðarsdóttir tók að sér þjálfun liðsins fyrstu tvö árin og gekk þeim nokkuð vel fyrra tímabilið. Liðið endaði í sjötta sæti af sjö liðum, með 11 stig. Seinna tímabilið gekk heldur verr og varð neðsta sætið niðurstaðan. Grétar Þórsson, sem jafnframt var leikmaður meistaraflokks karla, tók við þjálfun liðsins af Ásdísi árið 1995 og undir hans stjórn var árangur næstu tveggja ára svipaður og árin áður.

Kristjana Aradóttir tók þvínæst við þjálfun liðsins í eitt ár, sumarið 1997. Liðið tók miklum framförum undir hennar stjórn og náði sínum besta árangri til þessa, þriðja sæti af sex liðum í sínum riðli með 15 stig, en liðið vann helming leikja sinna eða fimm talsins. Agnes Guðnadóttir, sem lék með liðinu á árunum 1993-2000, telur að Kristjana hafi verið happafengur fyrir félagið: „Hún kom með ákveðinn metnað inn í þjálfunina og skilaði það sér vel inn í spilamennsku liðsins.“

Mannekla viðvarandi vandamál
Einar Jónsson tók við þjálfuninni af Kristjönu fyrir sumarið 1998. Selfoss náði ekki sama árangri og árið áður og endaði í næstneðsta sæti riðilsins. Liðinu tókst hins vegar að rífa sig aftur upp ári síðar, en þá hafði Sverrir G. Ingibjartsson tekið við þjálfun þess. Fjórir sigrar og eitt jafntefli þýddi að liðið endaði tímabilið með 13 stig. Þeim tókst þó ekki að fylgja eftir þeim góða árangri árið eftir, en Selfoss dró lið sitt úr leik eftir aðeins tvo leiki.

Að sögn Agnesar var lítill áhugi á svæðinu fyrir æfingum og alltof fáar æfðu að staðaldri. Það má segja að mannekla hafi verið viðvarandi vandamál hjá liðinu á þessum árum. „Við vorum fáar sem æfðum og stundum náðum við varla í lið, mættum jafnvel í leik með aðeins einn varamann,“ segir Agnes.

Þessi tvö skipti þar sem Selfoss sendi meistaraflokk kvenna til keppni um árabil náðist oft á tíðum góður árangur, sérstaklega í ljósi þess að liðið var nýtt og lítil hefð fyrir kvennaknattspyrnu á svæðinu. Laufey og Agnes eru sammála því að nokkuð hafi vantað upp á umgjörðina í kringum liðið á þessum tíma þegar þær eru spurðar út í hana.

„Það var meira hvað við gátum gert fyrir klúbbinn, ekki hvað klúbburinn gat gert fyrir okkur, eins og er í dag, enda var engin hefð fyrir kvennaknattspyrnu á svæðinu. Stjórnarmenn og aðrir voru þó mjög hjálpsamir og vildu hjálpa okkur eins og þeir gátu,“ segir Laufey.

Agnes tekur í sama streng og segir ekki mikinn stuðning hafa verið við kvennaboltann árin sem hún lék með liðinu, 1993-2000. „Umgjörðin var allt önnur en hún er í dag. Við vorum fáar sem æfðum og það var ekki mikill stuðningur við kvennaboltann þá. Það komu ekki margir áhorfendur að horfa á okkur en einn get ég þó nefnt. Hann mætti á alla leiki og stóð á hliðarlínunni og hvatti okkur áfram. Það var Kjartan Björnsson,“ „Þegar ég lít til baka hugsa ég oft hvað það hefði verið gaman að hafa svona umgjörð utan um liðið eins og er í dag og spila fyrir framan þessa frábæru áhorfendur sem fylgja liðinu,“ segir Agnes að lokum.

Maður spyr sig óneitanlega hvort betur hefði tekist að halda liðinu gangandi með betri umgjörð. Það starf sem unnið er á Selfossi í dag er augljóslega að skila sér í frábæru liði. Með þann efnivið sem er í yngri flokkunum og það starf sem þar er unnið er ljóst að meistaraflokkurinn á framtíðina fyrir sér og verður spennandi að fylgjast með þeim.

Þetta er fyrsta greinin af þremur þar sem Jóhann Ólafur Sigurðsson rekur sögu meistaraflokks kvenna í knattspyrnu á Selfossi. Næstu pistlar munu birtast á sunnlenska.is fimmtudaginn 28. ágúst og föstudaginn 29. ágúst. Svo mæta allir á Laugardalsvöllinn laugardaginn 30. ágúst kl. 16 þar sem Selfoss mætir Stjörnunni í úrslitaleik Borgunarbikarsins.

TENGDAR GREINAR:
Saga kvennaknattspyrnunnar á Selfossi – II

Fyrri greinFyrsta öryggismyndavélin tekin í notkun
Næsta greinEinstaklingsíþrótt með liðsanda