Celeste kvaddi með marki

Selfoss tapaði 2-1 þegar liðið heimsótti Þór/KA í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld.

Þórsarar komust yfir á 26. mínútu leiksins en Celeste Boureille jafnaði metin fyrir Selfoss á 62. mínútu. Lengra komust Selfyssingar þó ekki því heimakonur skoruðu sigurmark leiksins á 77. mínútu.

Þetta var fyrsti ósigur Selfoss á útivelli í Pepsi-deildinni í sumar.

Celeste, sem hefur verið einn besti leikmaður Selfyssinga í sumar, var að leika sinn síðasta leik á tímabilinu. Hún heldur nú aftur til Bandaríkjanna ásamt þeim Dagnýju Brynjarsdóttur og Thelmu Björk Einarsdóttur.

Selfyssingar hafa ekki í hyggju að bæta við sig leikmönnum þrátt fyrir að missa þrjá af sínum sterkustu leikmönnum en æfingahópur liðsins er breiður og þeir leikmenn sem hafa verið fyrir utan byrjunarliðið munu taka sæti þremenninganna sem kveðja nú.

Eftir leiki kvöldsins er Selfoss í 5. sæti Pepsi-deildarinnar með nítján stig og leikur næst á heimavelli gegn Aftureldingu, næstkomandi miðvikudag.

Fyrri greinEldur í rafstöðvarhúsi
Næsta greinÖrvar sendi Ísbjörninn á Veiðisafnið