„Ég er ekki vítaspyrnusérfræðingur“

Markvörðurinn Alexa Gaul var hetja Selfyssinga þegar þeir tryggðu sér sæti í úrslitum Borgunarbikars kvenna í knattspyrnu í kvöld. Hún varði þrjár vítaspyrnur og skoraði sjálf úr einni.

„ Við ætluðum auðvitað ekki að fara með leikinn í vítaspyrnukeppni en það gerðist nú samt. Ég var mjög einbeitt og vissi nokkurn veginn hvar þær myndu skjóta. Ég reyndi bara að vera róleg allan tímann og þetta gekk fullkomlega upp,“ sagði Gaul í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Þetta var frábær liðssigur hjá okkur og stelpurnar stóðu sig allar vel allan leikinn. Liðið okkar er góð heild, það er búið að ganga vel hjá okkur í sumar og við höfum verið að stíga upp að undanförnu. Við erum komnar í úrslit og það er algjörlega frábært, ég er mjög spennt fyrir því að komast í úrslitaleikinn,“ sagði Gaul ennfremur.

Markmaðurinn knái varði tvær vítaspyrnur í átta liða úrslitunum gegn ÍBV og þrjár í kvöld gegn Fylki. Auk þess fór hún á punktinn og skoraði í báðum vítaspyrnukeppnunum. En er hún einhverskonar sérfræðingur þegar kemur að vítum?

„Nei, ég er ekki vítaspyrnusérfræðingur, ég er bara heppin,“ sagði Alexa Gaul hógvær og hlæjandi að lokum.

Fyrri greinStór trukkur í vandræðum í Krossá
Næsta greinFerðafólk hætt komið í Steinholtsá