Mörkunum rigndi á Selfossi

Selfoss tók á móti Íslandsmeisturum Stjörnunnar í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur urðu 3-5 í bráðfjörugum rigningarleik.

Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, var ekkert himinlifandi þegar sunnlenska.is ræddi við hann eftir leik. „Mér fannst lé­legt hjá okk­ur að gefa leik­inn frá okk­ur. Við spiluðum glimr­andi vel á upp­haf­smín­út­un­um en eft­ir að við kom­umst yfir þá hætt­um við að gera það sem við ætluðum að gera og var held­ur bet­ur refsað fyr­ir það. Ég er mjög óánægður með þetta. Sel­foss á að geta unnið lið eins og Stjörn­una þó að Stjarn­an sé með frá­bært lið,“ sagði Gunn­ar í samtali við sunnlenska.is.

Það rigndi hressilega stærstan hluta leiksins og JÁVERK-völlurinn var rennandi blautur. Slíkar aðstæður bjóða oft upp á líf og fjör þó að mistökin hafi verið fullmörg Selfossmegin á köflum.

Fyrir leikinn hafði Selfoss unnið þrjá deildarleiki í röð og þær vínrauðu mættu fullar sjálfstraust til leiks. Celeste Boureille átti hörkuskot rétt yfir á upphafsmínútunni og á 5. mínútu lét Dagný Brynjarsdóttir vaða í þverslána eftir góðan sprett og fyrirgjöf frá Evu Lind Elíasdóttur. Dagný var aftur á ferðinni tveimur mínútum síðar og nú brást henni ekki bogalistin heldur skaut hún hnitmiðuðu skoti í fjærhornið úr þröngu færi hægra megin, 1-0.

Eftir að Selfyssingar komust yfir tók við skelfilegur kafli hjá liðinu. Alexa Gaul hafði tvívegis náð að verja mjög vel áður en Stjarnan jafnaði á sextándu mínútu. Jöfnunarmarkið lá í loftinu og aðeins þremur mínútum síðar var Stjarnan komin í 1-2 eftir mark úr vítaspyrnu og Harpa Þorsteinsdóttir með bæði mörk gestanna.

Harpa slapp síðan ein innfyrir á 20. mínútu en Gaul mætti henni framarlega í vítateig Selfoss og varði vel. Hún kom hins vegar engum vörnum við á 28. mínútu þegar Selfossvörnin náði ekki að hreinsa frá og Harpa negldi inn þriðja marki sínu á tólf mínútum.

Selfossliðið var virkilega slegið út af laginu og Stjarnan lét kné fylgja kviði með fjórða marki sínu á 36. mínútu. Á þessum 25 mínútna kafla gerðu Selfyssingar Stjörnunni alltof auðvelt fyrir og gestirnir lágu í sókn.

Á lokamínútu fyrri hálfleiks svöruðu Selfyssingar loksins fyrir sig, Erna Guðjónsdóttir tók fína hornspyrnu frá vinstri og eftir mikinn barning í vítateig Stjörnunnar náði Boureille að koma knettinum í netið. Staðan 2-4 í hálfleik.

Upphafsmínútur síðari hálfleiks voru rólegar og ekkert markvert í gangi fyrr en Selfyssingar gáfu gestunum boltann á stórhættulegum stað í öftustu víglínu. Harpa fékk stungusendingu innfyrir og kláraði færið auðveldlega og markið stóð, þrátt fyrir talsverðan rangstöðufnyk. Skömmu síðar var Harpa sloppin aftur innfyrir eftir útspark frá Söndru Sigurðardóttur í marki Stjörnunnar en markadrottningin skaut hárfínt framhjá fjærstönginni.

Á 65. mínútu skoruðu Selfyssingar glæsilegt mark. Guðmunda Brynja Óladóttir fékk þá boltann á miðjum vallarhelmingi Stjörnunnar og lék á hvern varnarmanninn á fætur öðrum. Hún stakk boltanum síðan inn á Boureille sem renndi boltanum örugglega framhjá Söndru í marki Stjörnunnar.

Leikurinn róaðist nokkuð eftir þriðja mark Selfoss en Selfyssingar áttu fína spilkafla í seinni hluta síðari hálfleiks og bæði lið fengu hálffæri sem nýttust ekki. Á 89. mínútu átti Dagný skalla eftir hornspyrnu, sem Sandra varði, en frákastið barst á Guðmundur sem skaut rétt yfir. Þetta var síðasta færi leiksins og lokatölur 3-5.

Næsti leikur Selfoss er strax á föstudagskvöld en þá mætir liðið ÍBV í átta liða úrslitum bikarkeppninnar. Leikurinn er kl. 18 á JÁVERK-vellinum.

Fyrri greinNorræn barokkveisla með suður-amerísku ívafi
Næsta greinRangárþing eystra og Ölfus fá styrk