Engin uppskera úr jöfnum leik

Selfyssingar tóku á móti toppliði Þróttar R. í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld í fyrsta heimaleik sínum þetta sumarið. Eitt mark var skorað í annars jöfnum leik og féll það Þróttara megin.

Fyrri hálfleikur var bragðdaufur og fátt um færi, Selfyssingar fóru mjög varlega, leyfðu Þrótturum að vera með boltann en hvorugt liðið náði að skapa sér afgerandi færi. Þróttarar voru þó líklegri í fyrri hálfleiknum sem var markalaus.

Selfyssingar byrjuðu síðari hálfleikinn af miklum krafti og sóttu stíft að marki Þróttar. Boltinn gekk mun hraðar hjá Selfyssingum heldur en í fyrri hálfleik og þegar þannig háttar eru þeir miklu líklegri til afreka.

Þróttarar komust hinsvegar yfir á 64. mínútu eftir klafs í vítateig Selfyssinga, þvert gegn gangi leiksins. Eftir markið jafnaðist leikurinn aftur og Selfyssingum gekk verr en áður að byggja upp góðar sóknir. Helsta hættan skapaðist upp við mark Þróttar eftir föst leikatriði, en á 73. mínútu komust heimamenn næst því að skora þegar Elton Barros skallaði boltann að marki eftir aukaspyrnu en knötturinn var kýldur frá á ögurstundu.

Leikurinn fjaraði smátt og smátt út eftir þetta og á lokamínútunum sóttu Þróttarar talsvert meira en Selfyssingar virtust þá vera búnir að missa trúna á verkefninu í sókninni.

Að loknum þremur umferðum eru Selfyssingar í 9. sæti deildarinnar með 3 stig en næsti deildarleikur liðsins er mánudaginn 2. júní á útivelli gegn HK. Í millitíðinni leika Selfyssingar bikarleik gegn Stjörnunni, einnig á útivelli, næstkomandi þriðjudag.

Fyrri greinÁrmann Einars: Talað á mannamáli
Næsta greinBætti 32 ára gamalt héraðsmet