Gestirnir hirtu stigin

Kvennalið Selfoss í knattspyrnu tapaði 2-3 þegar Þór/KA kom í heimsókn í Pepsi-deildinni í dag. Þetta var fyrsti grasleikurinn á JÁVERK-vellinum í sumar.

Leikurinn byrjaði fjörlega og Erna Guðjónsdóttir var nálægt því að koma Selfyssingum yfir strax á 2. mínútu eftir frábært spil í gegnum vörn Þórs/KA en Roxanne Barker sá við henni í markinu.

Á 6. mínútu komust gestinir síðan yfir þegar Kayla Grimsley tók hornspyrnu alveg yfir á fjærstöng þar sem Hafrún Olgeirsdóttir lúrði og skoraði fyrsta mark leiksins.

Leikurinn var í jafnvægi í fyrri hálfleik og einkenndist helst af stöðubaráttu á miðjunni en sóknarleikur beggja liða var nokkuð tilviljunarkenndur. Á 13. mínútu skaut Hafrún rétt yfir mark Selfoss eftir að hún vann boltann í öftustu víglínu Selfyssinga.

Gestirnir komust í 0-2 á 24. mínútu eftir snyrtilegt þríhyrningsspil í gegnum Selfossvörnina og Katrín Ásbjörnsdóttir batt endahnút á sóknina með marki.

Á 41. mínútu var brotið á leikmanni Þórs fyrir utan vítateig Selfoss en boltinn barst innfyrir á Katrínu sem skoraði en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Dómarinn gaf Þórsurum þá aukaspyrnu fyrir brotið en hætti svo við alltsaman eftir töluverða reikistefnu og ráðleggingar frá aðstoðardómara.

Selfoss keyrði af stað í hraða sókn og nýtti sér ringulreiðina í Þórsvörninni til þess að skora. Eva Lind Elíasdóttir óð upp völlinn með boltann og sendi fyrir þar sem Erna og Guðmunda Óladóttir voru í baráttunni en boltinn barst að lokum aftur út úr vítateignum á Evu Lind sem lét vaða að marki og skoraði með glæsilegu skoti. 1-2 í hálfleik.

Selfyssingar voru ekki á tánum í upphafi síðari hálfleiks því strax á 48. mínútu slapp Thanai Annis innfyrir hægra megin og renndi boltanum framhjá Alexa Gaul og í netið. Staðan orðin 1-3 og útlitið frekar dökkt fyrir Selfyssinga sem höfðu ekki skapað sér mörg færi fram að þessu.

Þær vínrauðu svöruðu reyndar fljótlega fyrir sig með glæsilegu marki. Á 52. mínútu tók Erna aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi Þórs, sem rataði beint á kollinn á Blake Stockton sem skallaði boltann glæsilega í netið.

Tveimur mínútum síðar fékk Þór/KA aukaspyrnu á stórhættulegum stað við vítateig Selfyssinga en Grimsley skaut rétt yfir markið. Þetta var í raun það síðasta markverða sem gerðist í leiknum en síðasti rúmi hálftíminn var ákaflega tíðindalítill og fátt um færi beggja vegna.

Á 75. mínútu átti Thelma Björk Einarsdóttir góðan sprett upp vinstri kantinn og fyrirgjöf hennar var nálægt því að fara á rammann en boltinn hafnaði ofan á Þórsmarkinu. Fjórum mínútum síðar var Katrín Ásbjörnsdóttir komin í góða stöðu í vítateig Selfoss en hitti boltann illa og náði ekki krafti í skotið.

Síðustu tíu mínúturnar reyndu Selfyssingar allt hvað af tók að jafna leikinn en þær náðu ekki að brjóta vörn gestanna á bak aftur og fengu ekki færi.

Eftir tvær umferðir eru Selfyssingar enn án stiga en næsti leikur liðsins er gegn Aftureldingu á útivelli, þriðjudaginn 27. maí.

Fyrri greinSumartími á söfnunum
Næsta greinJúlía Björns: Á lærdómsferðalagi