„Höfum ekki úthald í svona lið“

Áslaug Ýr Bragadóttir átti stórleik fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kvennalið Selfoss fékk topplið Stjörnunnar í heimsókn í Olís-deildinn í handbolta í dag. Stjarnan hafði góð tök á leiknum þegar leið á og sigraði 16-26.

„Það var margt gríðarlega jákvætt í þessum leik hjá okkur en liðið er þunnskipað og þegar líður á leikinn kemur í ljós að breiddin er ekki mikil hjá okkur. Það er mikið um meiðsli í hópnum sem hafa verið að setja strik í reikninginn hjá okkur og við höfum ekki úthald í svona lið eins og Stjörnuna og stelpurnar voru orðnar þreyttar í lokin,“ sagði Sebastian Alexandersson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Selfyssingar byrjuðu vel í leiknum og leiddu 7-6 eftir tuttugu mínútna leik en mörk Selfoss urðu ekki fleiri í fyrri hálfleik og Stjarnan var 7-10 yfir í leikhléi. Stjarnan komst í 9-15 í upphafi seinni hálfleiks og að lokum skildu tíu mörk liðið að.

Florentina Stanciu reyndist Selfyssingum erfið í marki Stjörnunnar en góðar markvörslur hennar skiluðu Stjörnuliðinu mörgum hraðaupphlaupum. Stjarnan skoraði alls sextán mörk úr hröðum upphlaupum en leikur liðsins breyttist mikið til hins betra þegar Ölfusingurinn Jóna Margrét Ragnarsdóttir kom inn af bekknum, en Jóna skoraði fimm mörk í leiknum.

Hafnhildur Hanna Þrastardóttir var langmarkahæst Selfyssinga með 9 mörk, Hildur Öder Einarsdóttir og Carmen Palamariu skoruðu báðar 2 mörk og þær Helga Rún Einarsdóttir, Heiða Björk Eiríksdóttir og Perla Ruth Albertsdóttir skoruðu allar 1 mark.

Áslaug Ýr Bragadóttir átti fínan leik í marki Selfoss, varði 14 skot og var með 38% markvörslu. Hún tók hverja sjónvarpsmarkvörsluna á fætur annarri og stöðvaði Stjörnukonur í dauðafærum.

Selfoss er í 11. sæti deildarinnar með 9 stig.

Fyrri greinRúta útaf í Skógarhlíð
Næsta greinGuðmunda útnefnd íþróttamaður HSK