Selfyssingarnir sprækastir gegn Svíum

Selfyssingarnir Jón Daði Böðvarsson og Guðmundur Þórarinsson stóðu sig vel þegar Ísland tapaði 2-0 fyrir Svíþjóð í vináttulandsleik í knattspyrnu í Abu Dhabi í dag.

Jón Daði var í byrjunarliðinu og lék allan leikinn á hægri vængnum. Guðmundur kom inná í hálfleik og stóð sig vel á miðjunni í síðari hálfleiknum í sínum fysta A-landsleik. Hann var nálægt því að skora þegar hann átti tvö góð skot á mark Svíanna með stuttu millibili en það síðara fór í stöngina á sænska markinu.

Fotbolti.net valdi Jón Daða mann leiksins hjá íslenska liðinu en hann var mjög líflegur framan af leiknum þó að minna hafi borið á honum þegar leið á leikinn. Guðmundur þótti sprækastur varamannanna og mun hann væntanlega vera áfram inni í myndinni hjá landsliðsþjálfurunum eftir frammistöðu sína í dag.


Guðmundur í baráttunni um boltann í sínum fyrsta A-landsleik. Ljósmynd/Hilmar Þór Guðmundsson

Fyrri greinUnnur Brá kjörin formaður þingmannanefndar
Næsta greinSjö marka tap hjá Selfyssingum