Brentford vill skoða Þorstein betur

Forráðamenn enska knattspyrnuliðsins Brentford hafa beðið um að fá Selfyssinginn Þorstein Daníel Þorsteinsson aftur til reynslu til félagsins.

Þorsteinn fór til Brentford ásamt Svavari Berg Jóhannssyni í október síðastliðnum og hrifust þjálfarar liðsins mjög af frammistöðu þessa sókndjarfa bakvarðar.

Í kjölfarið barst svo beiðni frá félaginu um að fá að skoða Þorstein betur og fer hann út næstkomandi miðvikudag ásamt framherjanum Magnúsi Inga Einarssyni og verða þeir þar í eina viku. Meðal annars verður sérstaklega settur upp leikur með 21 árs liði félagsins til þess að skoða Þorstein.

Selfoss og Brentford eiga í samstarfi í leikmannamálum og hafa Selfyssingar reglulega farið út til Brentford síðustu mánuði. Sömuleiðis hafa Selfyssingar skoðað leikmen frá Brentford og hefur þegar verið samið um að miðjumaðurinn Montrell Moore muni leika með Selfyssingum næsta sumar.

Fyrri greinJón Sig kvaddur eftir rúm 41 ár á Litla-Hrauni
Næsta greinVegalausir menn brutust inn í tóma íbúð