Basti „ennþá bestur“

Selfyssingar unnu nokkuð torsóttan sigur á ÍH í 1. deild karla í handbolta þegar liðin mættust í Vallaskóla í kvöld. Lokatölur voru 22-17 eftir mjög sveiflukenndan leik.

Vörnin var í hávegum höfð í upphafi leiks og sóknarnýting liðanna afleit, gestirnir skoruðu tvö fyrstu mörk leiksins en eftir fimmtán mínútna leik var staðan aðeins 2-2. Eftir það var jafnt á flestum tölum en Selfoss skoraði fjögur síðustu mörkin í fyrri hálfleik og þrjú fyrstu mörk síðari hálfleiks. Þannig breyttu þeir vínrauðu stöðunni úr 6-7 í 13-7 en staðan í hálfleik var 10-7.

Eftir þessa góðu rispu Selfyssinga misstu þeir dampinn og óagaður varnarleikur hleypti gestunum aftur inn í leikinn. ÍH skoraði fimm mörk í röð og breytti stöðunni í 13-12 en þá tóku Selfyssingar aftur við sér, juku forskotið í fjögur mörk og héldu haus út leikinn.

Markverðir liðanna voru í aðalhlutverki, Sigurður Örn Arnarson átti fínan leik í marki ÍH en maður leiksins var Sebastian Alexandersson sem lék á alls oddi í marki Selfoss, varði 22 skot og var með 58% markvörslu. Basti átti margar frábærar markvörslur og þess á milli gaf hann sér tíma til að spjalla við stuðningsmenn gestanna í stúkunni. „Ennþá bestur,“ sagði markvörðurinn reynslumikli meðal annars í spjalli við stúkuna eftir frábæra vörslu í fyrri hálfleik.

Þetta var erfiður leikur fyrir Selfyssinga og þó að sóknarleikur gestanna hafi ekki verið burðugur þá spiluðu þeir hörkuvörn á köflum og stemmningin var mikil í liðinu. Það smitaðist líka upp í stúku en stuðningsmenn beggja liða voru vel með á nótunum og andrúmsloftið í stúkunni var gott.

Dómarapar leiksins hafði ágæt tök á leiknum lengst af og var með skárri sendingum sem HSÍ hefur sent í sveitina á síðustu árum. Það verður þó að minnast á þá gjörsamlega fáránlegu ákvörðun þeirra að gefa Einari Sverrissyni rauða spjaldið þegar ein sekúnda var eftir af leiknum. Hvað Einar átti að hafa gert til að verðskulda rauða spjaldið var engum í húsinu ljóst, en andstæðingurinn sem hann átti í viðskiptum við féll í gólfið með þvílíkum tilþrifum að líklega verður hringt í hann fljótlega frá Leikfélagi Hafnarfjarðar, sem alltaf er að leita að öflugum mannskap.

Einar var markahæstur Selfyssinga með 7/1 mörk, Ómar Ingi Magnússon og Hörður Másson skoruðu báðir 3, Sverrir Pálsson, Andri Már Sveinsson og Magnús Már Magnússon 2 og þeir Andri Hrafn Hallsson, Matthías Örn Halldórsson og Örn Þrastarson skoruðu allir 1 mark.

Selfoss er nú í 3. sæti deildarinnar með sjö stig og hefur aðeins tapað einu stigi í vetur.

Fyrri greinReykræstu hús á Selfossi
Næsta greinNaumir sigrar hjá Hamri og FSu