Grétar Ingi í Skallagrím

Miðherjinn Grétar Ingi Erlendsson hefur gengið í raðir Skallagríms frá Þór Þorlákshöfn og mun leika með Borgnesingum í Domino's-deild karla í körfubolta í vetur.

„Mig langaði bara til þess að prófa eitthvað nýtt. Ég hef alla tíð verið í Þór og hafði áhuga fyrir því að breyta til og reyna fyrir mér annarsstaðar,“ sagði Grétar í samtali við sunnlenska.is. Hann ætlar að búa áfram í Þorlákshöfn og keyra á milli.

„Mér lýst vel á Skallagrím og það er spennandi tímabil framundan,“ segir Grétar sem mun mæta fyrrum félögum sínum í Þór á parketinu í Þorlákshöfn í 7. umferð deildarinnar. „Ég hef náttúrulega aldrei spilað fyrir neitt annað félag þannig að það verður eflaust mjög skrítið. Ég vona bara að maður eigi eftir að standa sig vel,“ sagði Grétar.

Grétar er tveggja metra maður, þrítugur að aldri, en á síðustu leiktíð skoraði hann að meðaltali 9,5 stig í leik fyrir Þór og tók 5,6 fráköst. Grétar gerði eins árs samning við Skallagrím, en í samningnum er möguleiki á framlengingu.

Hann er nú þegar kominn með leikheimild og verður í leikmannahópi liðsins sem mætir Stjörnunni í kvöld í Lengjubikarnum.

Fyrri greinSýnum tillitssemi á Heiðinni
Næsta greinBúist við stormi í nótt