Selfyssingar töpuðu í Breiðholtinu

Karlalið Selfoss í knattspyrnu tapaði 3-2 þegar liðið heimsótti Leikni í Breiðholtið í 1. deildinni í kvöld. Javier Zurbano skoraði bæði mörk Selfoss.

Bæði lið fengu færi á fyrsta hálftímanum en Leiknismenn voru hættulegri og fengu betri færi. Á 29. mínútu komust heimamenn yfir þegar boltanum var stungið innfyrir Selfossvörnina á snöggan sóknarmann sem kláraði færið vel. Selfyssingar jöfnuðu hins vegar á 44. mínútu þegar Javier Zurbano tók góðan snúning fyrir utan teig og lagði boltann svo niðri í hornið.

Leiknismenn voru sterkari í seinni hálfleik og komust yfir strax á 6. mínútu síðari hálfleiks. Tíu mínútum síðar sáust færi á báða bóga, Jóhann Ólafur varði vel en hinu megin á vellinum komust heimamenn fyrir boltann á síðustu stundu og bjöeguðu marki.

Leiknir komst í 3-1 á 65. mínútu með skallamarki eftir aukaspyrnu og eftir það fjaraði leikurinn út og liðin sköpuðu sér ekki mikið af færum. Selfoss minnkaði muninn með marki úr vítaspyrnu á 86. mínútu eftir brot í vítateig Leiknis. Zurbano fór á punktinn og skoraði af öryggi í mitt markið.

Selfoss er nú í 8. sæti deildarinnar með 27 stig og þeir tölfræðilegu möguleikar sem þeir áttu á Pepsi-deildarsæti eru horfnir. Tvær umferðir eru eftir af 1. deildinni en á laugardag heimsækja Selfyssingar Fjölni í Grafarvoginn.

Fyrri greinLandsvirkjunarmenn hafa afboðað fjóra fundi í sumar
Næsta greinGóðir gestir frá Hvolsvelli