Selfoss skellti toppliðinu – aftur

Selfoss skellti toppliði Grindavíkur í annað sinn í sumar í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur á Selfossvelli voru 3-0.

Leikurinn var jafn til að byrja með en á 17. mínútu skoraði Svavar Berg Jóhannsson gott mark eftir sendingu úr teignum frá Javier Zurbano. Þetta var eina mark fyrri hálfleiks, í annars jöfnum og skemmtilegum leik þar sem liðin sóttu á víxl og keppust þess á milli við að fóta sig á rennblautum vellinum.

Selfyssingar gáfu gestunum gott kjaftshögg á upphafsmínútum síðari hálfleiks og strax á 48. mínútu skoraði bakvörðurinn Þorsteinn Daníel Þorsteinsson frábært mark. Hann tók yfirhlaup á kantinum og óð síðan með boltann inn í vítateig og alla leið inn að marki þar sem hann lét vaða á nærstöngina og í netið.

Þriðja mark Selfoss kom á 66. mínútu en áður en það leit dagsins ljós höfðu bæði lið átt álitleg færi og boltinn fór í tréverkið á báðum endum vallarins. Það var hins vegar Luka Jagacic sem innsiglaði sigur Selfoss með skallamarki eftir hornspyrnu.

Eftir þriðja markið fjaraði leikurinn út. Grindvíkingar færðu sig framar á völlinn en uppskáru ekkert og Selfyssingar náðu ekki að bæta við marki.

Selfyssingar eru í 7. sæti deildarinnar með 27 stig þegar þrjár umferðir eru eftir.

Fyrri greinHamarsmenn fallnir – Ægir tapaði fyrir Gróttu
Næsta greinLangur vegur eftir