Tveir bikarar komnir í hús hjá Skarphéðni

Héraðssambandið Skarphéðinn sigraði bæði í handknattleik kvenna og borðtennis á fyrsta keppnisdegi Landsmóts UMFÍ sem hófst á Selfossi í dag.

Tvö lið voru skráð í handknattleik kvenna og lagði HSK lið UMFN í hreinum úrslitaleik. Tinna Soffía Traustadóttir, fyrirliði HSK, var því fyrsti íþróttamaðurinn til að lyfta bikar á landsmótinu þegar hún tók við verðlaunum HSK fyrir stigakeppni kvenna í handbolta.

Þá sigraði HSK í samanlagðri stigakeppni karla og kvenna í borðtennis. HSK konur sigruðu í kvennaflokki þar sem Bergrún Linda Björgvinsdóttir varð landsmótsmeistari.

Keppni dagsins gekk vel fyrir sig en keppt var í skotfimi, handbolta, borðtennis og badminton en í síðastnefndu greininni varð lið HSK í 4. sæti.

Á morgun hefst íþróttakeppnin af fullum þunga, meðal annars frjálsíþróttakeppnin sem gjarnan er miðpunktur landsmótanna.

Fyrri greinKeppni á Landsmóti UMFÍ hafin
Næsta greinAllt í góðu á hálendinu