Bragi ráðinn þjálfari Hamars

Bragi Bjarnason hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs Hamars 1. deildinni í körfubolta og skrifaði hann undir eins árs samning við Hvergerðinga nú í kvöld.

Bragi hefur þjálfað í 2. deildinni undanfarin þrjú ár, lið Heklu síðustu tvö tímabil en þar áður lið Árborgar. Hann er einnig margreyndur leikmaður og hefur m.a. leikið samtals fjögur keppnistímabil með Hamri en auk þess hefur hann leikið með FSu og Hetti. Hann mun verða spilandi þjálfari hjá Hamri, „ef þörf reynist á,“ eins og hann orðaði það í samtali við sunnlenska.is.

„Þetta er spennandi verkefni og mjög mikil áskorun fyrir mig,“ sagði Bragi ennfremur, og bætti við að stefnan væri sett beint upp í efstu deild. Leikmannahópur liðsins muni halda sér að mestu en Hamar hefur misst Ragnar Nathanaelsson í Þór og Odd Ólafsson, sem lék með liðinu eftir áramót í fyrra, í raðir Vals. Þá eiga útlendingamálin eftir að skýrast en Hamar mun væntanlega tefla fram einum bandarískum leikmanni.

Lárus Jónsson, sem þjálfaði Hamar í fyrra, sagði starfi sínu lausu fyrir skömmu þar sem hann mun flytja með fjölskyldu sinni til Malawi og vinna á vegum UNICEF.

Lárus Ingi Friðfinnsson, formaður körfuknattleiksdeildarinnar, segir mikla ánægju innan stjórnarinnar með ráðningu Braga. „Ég er hæstánægður með að við höfum fengið Rangæing til starfa, þeir hafa reynst okkur mjög vel hingað til,“ sagði Lárus léttur að vanda í samtali við sunnlenska.is.

Fyrri greinLárus tryggði KFR dramatískan sigur
Næsta greinSameining Háskólafélags og Fræðslunets til skoðunar