Selfoss og Rhein-Neckar Löwen í samstarf

Þýska stórliðið Rhein-Neckar Löwen og handknattleiksdeild Umf. Selfoss hafa gert með sér samkomulag um samstarf félagana á milli. Samstarfið gengur í fyrstu út á að efnilegir leikmenn hjá Selfossi geta átt möguleika á að fara út til RNL og æfa með aðalliði félagsins sem eins og flestir vita er undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar.

Eins gæti opnast möguleiki fyrir yngri leikmenn að komast á æfingar hjá B-liði RNL sem leikur í 3. deild og er að mestu skipað ungum og upprennandi leikmönnum. Í framhaldinu verða síðan skoðaðir möguleikar á samstarfi hjá akademíum félaganna, en bæði félögin reka mjög öflugar handknattleiksakademíur.

„Þetta er að sjálfsögðu gríðarlegur heiður og virðing sem Guðmundur Guðmundsson og Rhein-Neckar Löwen eru að sýna því uppbyggingarstarfi sem verið hefur í gangi á Selfossi undanfarin ár, bæði hjá félaginu og akademíunni í FSu. Hér er um að ræða eitt stærsta félag Evrópu og mér vitandi hefur ekkert íslenskt lið náð að komast í svo náin tengsl við annað eins stórlið,“ sagði Gunnar Gunnarsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is.

„Þetta getur opnað möguleika fyrir leikmenn sem virkilega vilja ná langt að kynnast því hvernig það er að vera hluti af einu besta félagsliði heims. Það liggur hins vegar alveg ljóst fyrir að við sendum ekki hvern sem er til Guðmundar, leikmenn þurfa að hafa unnið fyrir þessu tækifæri með góðri ástundun, réttu hugarfari og sýnt það í verki að þeir hafi það sem til þarf til að ná langt,“ bætti Gunnar við.

Guðmundur Guðmundsson, þjálfari RNL, segir að verkefni sem þetta virki örugglega sem hvatning fyrir unga og efnilega leikmenn en ljóst sé að einungis afburða leikmenn muni fá tækifæri til að koma út og spreyta sig.

„Rhein-Neckar Löwen rekur mjög öflugt starf fyrir leikmenn sextán ára og eldri og það er hefð fyrir þessu starfi hjá félaginu. Félagið lítur í kringum sig, bæði í Þýskalandi og annarsstaðar, að ungum of efnilegum leikmönnum og þetta er liður í því að gefa íslenskum afburðaleikmönnum tækifæri til að æfa með okkur. Ef þeir eru nógu góðir þá geta þeir mögulega æft með aðalliðinu í skamman tíma, eða þá með B-liðinu eða yngri liðum,“ sagði Guðmundur í samtali við sunnlenska.is.

„Selfoss hefur rekið sína akademíu árum saman og við erum opnir fyrir samstarfi við félag þar eru margir upprennandi leikmenn sem gætu mögulega orðið stjörnur í framtíðinni. Við munum sjá til hvernig þetta þróast en við erum mjög krítískir og þeir sem fá tækifæri eru þeir sem skara framúr,“ sagði Guðmundur ennfremur.

Fyrri greinÓnæði vegna hávaða frá borholum
Næsta greinKristinn sigraði á vormótinu