Grótta hafði betur í hörkuleik

Selfyssingar töpuðu fyrir Gróttu, 29-31, þegar liðin áttust við í Vallaskóla í kvöld. Selfoss skoraði aðeins þrjú mörk á síðustu tíu mínútunum og Grótta gekk á lagið.

Fyrri hálfleikur var jafn en eftir tuttugu mínútna leik náði Grótta að skora þrjú mörk í röð. Selfyssingar komu til baka og minnkuðu muninn í eitt mark en Grótta var skrefinu á undan síðustu tíu mínútur fyrri hálfleiks og leiddu sanngjarnt í hálfleik, 16-18.

Gestirnir byrjuðu betur í seinni hálfleik og komust í 19-22 en Selfoss skoraði þá fjögur mörk í röð. Eftir það var leikurinn í járnum en Selfyssingar fóru illa að ráði sínu á síðustu tíu mínútunum og hver sóknin á fætur annarri fór í súginn.

Matthías Örn Halldórsson var markahæstur Selfyssinga með 11 mörk, Einar Sverrisson skoraði 9, Hörður Bjarnarson 3/3, Hörður Másson 3 og þeir Jóhann Gunnarsson, Gunnar Ingi Jónsson og Einar Pétur Pétursson skoruðu allir eitt mark.

Helgi Hlynsson varði 12/1 skot í marki Selfoss og Sverrir Andrésson 1.

Selfoss hefur áfram 10 stig í 4. sæti deildarinnar en Grótta er nú með 8 stig í 5. sætinu.

Leikur Selfoss og Gróttu í 1. deild karla í handbolta var í beinni textalýsingu á sunnlenska.is.

60. mín: 29-31 Einar Sverris brýst í gegn. Brotið á honum. Víti þegar leiktíminn er úti. Hörður í Holti skorar 3/3 markið sitt í kvöld. Leik lokið.

60. mín: 28-31 Selfoss spilar maður á mann í vörninni og skilja Kristján eftir aleinann á línunni. Hann skorar.

60. mín: 28-30 Þessar síðustu mínútur hafa verið kennslustund í því hvernig ekki á að spila handbolta. Grótta tekur leikhlé þegar 32 sekúndur eru eftir. Áhorfendur láta sig hverfa, búast ekki við neinum töfrabrögðum í lokin.

59. mín: 28-30 Lárus ver. Gróttan að taka þetta.

58. mín: 28-30 Tvær sóknir Selfoss í súginn í röð. Skref og ruðningur.

57. mín: 28-30 Jóhann Gunnarsson skorar. Klukkan tifar.

56. mín: 27-29 Fjórir Selfyssingar ná ekki að skora. Lárus ver.

56. mín: 27-29 Tvær mínútur á Hörð Más sem sótti út í vörninni á móti sóknarmanni. Skrítinn dómur.

55. mín: 27-29 Lárus ver í marki Gróttu. Seltirnirngar í sókn.

55. mín: 27-29 Selfoss missir boltann. Grótta tekur langa sókn og skorar þegar höndin er komin upp.

54. mín: 27-28 Arnar Gunnarsson biður um leikhlé og ritaraborðið verður við þeirri bón. Selfyssingar eru með boltann.

53. mín: 27-28 Helgi er að halda Selfyssingum inni í leiknum með markvörslum á mikilvægum augnablikum. Sóknarklúðrið heldur áfram.

52. mín: 26-28 Grótta stelur boltanum og Árni Árna skorar sitt fimmta mark úr hraðaupphlaupi.

51. mín: 26-27 Fáránleg brottvísun á Einar Sverris. Fær boltann í fótinn þar sem hann stendur í hann.

50. mín: 26-26 Virðulegir heimilisfeður eru að fá mikla útrás hérna í stúkunni en það er bara gaman. Hörður B jafnar úr víti.

49. mín: 25-26 Matthías kominn með tíu mörk fyrir Selfoss.

49. mín: 24-26 Hver sóknarmistökin á fætur öðrum hjá Selfyssingum. Grótta fær góð færi og nýtir þau vel.

45. mín: 24-24 Skemmtilegt atvik. Þráinn með þrumuskot fyrir Gróttu, yfir markið. Dómararnir dæma boltann inni – en skipta svo um skoðun. Líklega réttilega. Það væri gaman að hafa reynslumeiri dómara á svona alvöru leik.

45. mín: 24-24 Matthías jafnar fyrir Selfoss. Menn eru ekkert að verja mikið frá honum hér í seinni hálfleik.

44. mín: 23-24 Grótta stelur boltanum og kemst yfir. Það stefnir í brjálaða stemmningu hérna það sem eftir lifir leiks.

43. mín: 23-23 Selfossvörnin er að fara á kostum þangað til dómararnir ákveða að vísa Ómari Eyrabakkatrölli af velli.

42. mín: 23-22 Helgi Hlyns með skrítna markvörslu í marki Selfoss. Þessar skrítnu eru reyndar ekkert verri. Selfoss í sókn og Hörður Más kemur þeim yfir af harðfylgi. Grótta tekur leikhlé.

42. mín: 22-22 Einar Sverris jafnar með sínu níunda marki í kvöld.

41. mín: 21-22 Gunnar Ingi skorar sitt fyrsta mark í kvöld og Grótta skýtur framhjá í næstu sókn. Selfoss með boltann.

39. mín: 19-22 Gróttumenn mun ferskari hér í upphafi síðari hálfleiks og refsa Selfyssingum grimmt fyrir einbeitingarleysið.

33. mín: 17-18 Helgi búinn að verja þrjú skot á fyrstu þremur mínútunum, þar af eitt víti.

31. mín: 17-18 Einar Sverrisson opnar seinni hálfleikinn fyrir Selfoss.

Einar Sverrisson er markahæstur Selfyssinga í fyrri hálfleik með 7 mörk og Matthías Halldórsson er með 5. Hjá Gróttu er Jóhann G. Jóhannsson með 7 mörk og Kristján Jóhannsson með 4.

Markmennirnir voru ekki í stuði fyrr en Lárus Gunnarsson mætti í markið hjá Gróttu. Hann hefur varið 6 skot á síðustu tíu mínútunum. Helgi Hlynsson er með 4 í marki Selfoss.

30. mín: 16-18 HÁLFLEIKUR Lárus Gunnarsson, markvörður Gróttu, lokar fyrri hálfleiknum með tilþrifamikilli markvörslu.

29. mín: Umdeilt atvik. Hörður Bjarnarson og Jóhann G Jóhannsson í faðmlögum. Jóhann gefur Herði olnbogaskot í kviðinn en dómararnir Matthías Leifsson og Örn Arnarson eru kjarklausir og dæma tvær mínútur á þá báða eftir stuttan fund.

29. mín: 16-17 Matthías með fallega sleggju fyrir Selfoss.

28. mín: 15-17 Fjörugar mínútur með markmannstilþrifum og sóknarfeilum. Jóhann G eykur forskotið fyrir Gróttu.

25. mín: 15-16 Hörður Bjarnarson með sitt fyrsta mark af vítalínunni

23. mín: 13-15 Helgi kominn aftur í markið hjá Selfyssingum. Hörður Más með skot yfir markið og Árni Árna svarar með stangarskoti fyrir Gróttu.

22. mín: 13-15 Leikhlé sem vallarþulurinn notar til að spila Don’t stop believing með Journey. Líklega tileinkað Selfyssingum sem hafa aðeins misst andann í leiknum.

22. mín: 13-15 Einar Sverris minnkar muninn. Selfyssingar stirðir í sókninni.

20. mín: 12-15 Lárus Gunnarsson er kominn í markið hjá Gróttu og byrjar á að verja. Grótta með þrjú mörk í röð.

19. mín: 12-12 Jafnt á öllum hingað til. Matthías braust í gegn og jafnaði af harðfylgi fyrir Selfoss.

18. mín: 11-11 Einar Sverrisson kominn með sex mörk. Það er skorað í hverri sókn á báðum endum vallarins.

16. mín: 10-10 Sverrir Andrésson er kominn í markið hjá Selfyssingum.

15. mín: 9-9 Harkan er að aukast í leiknum og báðir þjálfararnir eru nokkuð heitir á hliðarlínunni. Einar Sverrisson hefur farið mikinn í sókninni hjá Selfoss og skorað fimm mörk en hjá Gróttu er Jóhann G. Jóhannesson með fjögur. Markmenn liðanna láta lítið fara fyrir sér.

15. mín: 9-9 Hörður Másson jafnar fyrir Selfoss og Arnar Gunnarsson þjálfari tekur leikhlé í kjölfarið.

14. mín: 8-8 Kristján Kristjánsson ver tvívegis í röð í marki Gróttu. Jóhann G kemur þeim yfir í kjölfarið en Matthías jafnar strax fyrir Selfoss.

12. mín: 7-7 Ruðningur á Gróttu. Hörður Másson kemur inná í sínum fyrsta leik fyrir Selfoss í vetur.

10. mín: 7-7 Hver annar en Einar Sverrisson. Gróttumenn þruma í þverslána í næstu sókn, Selfoss í hraða sókn en Matthías tekur of mörg skref með boltann. Grótta aftur í sókn.

9. mín: 6-7 Matthías jafnar fyrir Selfoss en Grótta kemst strax yfir aftur. Hornamaðurinn Kristján Jóhannsson með sitt þriðja mark í röð.

8. mín: 5-6 Helgi ver sitt fyrsta skot í marki Selfoss en Kristján Jóhannsson nær frákastinu og boltinn syngur í netinu. Selfyssingar missa boltann í næstu sókn og Kristján skorar aftur.

7. mín: 5-4 Matthías Örn Halldórsson kominn á blað með fallegu marki.

6. mín: 4-4 Jóhann Jóhannesson jafnar fyrir Gróttu en fær svo tvær mínútur í næstu sókn Selfoss þar sem hann setur höndina í andlitið á Einari.

6. mín: 4-3 Arnar þjálfari hefur lagt leikinn upp þannig að Einar Sverrisson skori öll mörk Selfoss. Það hefur gengið vel hingað til.

5. mín: 3-3 Einar kemur Selfyssingum í 3-2 en Þráinn Orri Jónsson svarar strax fyrir Gróttu. Selfossvörninn á í vandræðum með þennan slána sem er kominn með tvö mörk.

4. mín: 2-2 Þrátt fyrir að spila í körfuboltabúningum þá byrja Gróttumenn betur og eru fyrri til að skora. Einar Sverrisson hefur skorað bæði mörk Selfoss.

1. mín: 0-1 Leikurinn hófst þremur mínútum fyrir settan leiktíma, kl. 19:27. Þarna eru þrjár mínútur sem borgandi áhorfendur fá líklega ekki til baka.

Liðin mættust á Nesinu í 1. umferðinni og þar fór Selfoss með sigur af hólmi eftir hörkuspennandi leik 24-25.

Selfoss er 4. sæti deildarinnar með 10 stig en Grótta í 5. sæti með 6 stig.

Fyrri greinSelfoss samþykkir tilboð Viking í Jón Daða
Næsta greinÞórsarar misstu af úrslitaleiknum