Sveitagrillvagn í amerískum anda

Hjónin Stefanía Björgvinsdóttir og Stefán Ólafsson hafa opnað grillvagn í amerískum stíl, „Sveitagrill Míu“, fyrir utan Sundlaugina á Hellu.

„Ég var í fæðingarorlofi og hafði nægan tíma til þess að hugsa aðeins um framtíðina og hvað mig langaði að gera þegar orlofinu lyki. Mig hafði lengi langað til þess að stofna mitt eigið fyrirtæki og einn daginn þegar ég var að skoða auglýsingar á netinu sá ég þennan æðislega, ameríska grillvagn til sölu og við hjónin ákváðum bara að stökkva á þetta tækifæri,“ sagði Stefanía, eða Mía eins og hún er gjarnan kölluð, í samtali við sunnlenska.is.

Vagninn er rauður með hvítum doppum, svokölluðum „polka-dots“, með skemmtilegum blæ sjötta áratugs síðustu aldar í Bandaríkjunum. Tónlist þess tíma, í bland við Amy Winehouse, Jamie Cullum og Michael Bublé ómar innan úr vagninum á meðan hamborgararnir snarka á grillinu sem gerir staðinn skemmtilega rómantískan. Til að undirstrika 50‘s þemað eru myndir af James Dean og Marilyn Monroe inni í vagninum með orðunum „Live, love, laugh“, en fá andlit eru eins einkennandi fyrir umrætt tímabil síðustu aldar.

Mía er ekki óvön veitingageiranum en hún ólst upp í Portúgal þar sem foreldar hennar ráku veitingastað í Algarve til margra ára og þar kviknaði áhugi hennar á matreiðslu.

„Við hjónin erum miklir sælkerar og finnst gaman að fara út að borða. Við erum mjög dugleg að elda fínan mat heima hjá okkur, alveg frá hamborgurum og upp í foie gras,“ segir Mía.

„Við stefnum að því að hafa opið flesta daga vikunnar í sumar, allavega allar helgar, en annars verður það bara að koma í ljós. Við komum svo til með að vera með fleiri rétti á matseðlinum, en við ákváðum að byrja rólega, með þrjá til fjóra rétti fyrst um sinn en svo verð ég einnig með kaffi, te og amerískt sælgæti í boði,“ segir hún aðspurð um opnunartíma og matseðilinn.

Sunnlenska.is óskar þeim hjónum til hamingju með opnunina og góðs gengis með þetta stórgóða framtak.

Fyrri greinHjólabók Ómars Smára komin út á ensku
Næsta greinFjölbreytt hátíðarhöld í Þykkvabænum